Fréttir

Kristján og Nína klúbbmeistarar GM árið 2019
Kristján Þór og Nína Björk fagna hér klúbbmeistaratitli árið 2016.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 7. júlí 2019 kl. 10:00

Kristján og Nína klúbbmeistarar GM árið 2019

Kristján Þór Einarsson og Nína Björk Geirsdóttir urðu á laugardaginn klúbbmeistarar Golfklúbbs Mosfellsbæjar þegar lokadagur Meistaramóts GM fór fram.

Í kvennaflokki réðust úrslitin á lokaholunum. Arna Rún Kristjánsdóttir var með eins höggs forystu eftir 16 holur en hún hafði þá fengið fugl á þeirri holu til að taka forystuna. Nína svaraði því með fugli á 17. holu og því var allt jafnt fyrir lokaholu mótsins.

Á 18. holunni, sem er rúmlega 130 metra löng par 3 hola, fékk svo Nína par á meðan Arna fékk skolla og því fagnaði Nína eins höggs sigri.

Þetta er í þriðja skiptið frá því að Golfklúbbur Mosfellsbæjar var stofnaður í lok árs 2014 sem Nína Björk verður klúbbmeistari. Síðast vann hún árið 2016.

Í karlaflokki var ögn minni spenna en þar sigraði Kristján Þór með fimm högga mun eftir fjóra hringi undir pari. Kristján lék samtals á 11 höggum undir pari í mótinu og varð að lokum fimm höggum á undan Ragnari Má Ríkarðssyni. Alls léku fjórir kylfingar undir pari í meistaraflokki karla þetta árið.

Þetta er fjórða árið í röð sem Kristján Þór verður klúbbmeistari GM í karlaflokki.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.