Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Læknirinn sem þarf ekki lækningu við golfbakteríunni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 10. maí 2024 kl. 07:00

Læknirinn sem þarf ekki lækningu við golfbakteríunni

Yfirlæknir blóðlækningadeildar Landspítalans, Signý Vala Sveinsdóttir, er kylfingur dagsins. Þar sem nám og vinna tók mikið af hennar tíma lengi vel, byrjaði hún ekki í golfi fyrr en fyrir nokkrum árum og er í dag orðin helsjúk en þarf sem betur fer ekki lækningu við golfbakteríunni. Eftir að hafa alist upp í Breiðholtinu færist hún æ vestar og býr í dag á Seltjarnarnesi og er meðlimur í Nesklúbbnum.
Hvenær byrjaðir þú í golfi og hvernig gerðist það?

Við hjónin skráðum okkur í Nesklúbbinn 2014 þegar við vorum nýflutt heim frá Svíþjóð, svona ef við skyldum fá áhuga á sportinu í framtíðinni. Mjög skynsamleg ákvörðun því að 5 árum síðar duttum við inn í klúbbinn og þá ákváðum við að hella okkur í þetta frá grunni. Vorum misdugleg að sinna þessu til að byrja með og ekki hjálpaði Covid en eiginlega tvö síðustu ár hefur áhuginn vaxið og golfhringjum fjölgað svo nú er ekki aftur snúið. Þá er það Skarphéðinn Egill sonur okkar sem heldur okkur við efnið en hann er að æfa með meistaraflokki Nesklúbbsins.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024
Helstu afrek í golfinu?

Ég vildi að ég hefði frá einhverju meiriháttar að segja en ætli stöku persónulegir sigrar séu ekki helstu afrek enn sem komið er. Nú stendur til að fara að keppa meira og vonandi vaxa í íþróttinni.

Hvað er það neyðarlegasta sem þú hefur lent í á golfvellinum?

Úff, mörg neyðarleg högg sem varla þarf að nefna en a.m.k. ekkert stórt enn sem hefur fælt mig frá því að halda áfram í golfi.

Hver er „frægasti“ kylfingurinn sem þú hefur leikið með?

Sá frægasti í golfheiminum á Íslandi er líklega Hulda Bjarnadóttir, formaður GSÍ en við spiluðum saman Texas scramble á Morgado nú í vor. Alltaf gaman að spila með góðum golfurum sem hvetja mann áfram. Mig langar hins vegar mikið að spila með Ásgerði Sverrisdóttur, kollega mínum og fyrrverandi Íslandsmeistara kvenna í golfi.

Ertu hjátrúarfull/ur hvað varðar golf?

Get ekki sagt það, ekki hjátrúarfull yfir höfuðið.

Hvað er það sem þú þarft mest að bæta í þínum golfleik?

Þarf jú að bæta flest en ætli það sé ekki stutta spilið sérstaklega.

Aldur: 47

Klúbbur: Nesklúbburinn

Forgjöf: 34, stefni á að komast vel undir 30 í sumar.

Uppáhaldsmatur: Er mikil matarmanneskja og finnst flest allt gott en góð nautasteik klikkar ekki.

Uppáhaldsdrykkur: Þar sem þetta er á íþróttavef segi ég sódavatn með lime bragði en neita því ekki að þykja kampavín sérlega gott.

Uppáhaldskylfingur:  Af þeim erlendu eru nokkrir sem mér finnst gaman að fylgjast með ss. Rickie Fowler og Scottie Scheffler en hérlendis er það að sjálfsögðu sonur minn, Skarphéðinn Egill.

Þrír uppáhaldsgolfvellir: Nesvöllurinn að sjálfsögðu, Bakkakot og Jaðarsvöllurinn af þeim íslensku en erlendis er reynslan ekki mjög mikil þótt Alamos völlurinn sem ég spilaði nýlega í Portúgal hafi verið einstaklega skemmtilegur völlur.

Þrjár uppáhaldsgolfbrautir á Íslandi: Braut 8 á Nesvelli og get svo nefnt 9.braut í Bakkakoti og 4. brautin á Jaðarsvellinum sem skemmtilegar par 3 brautir.

Erfiðasta golfholan: Eðli málsins samkvæmt eru margar erfiðar og í raun flestar sem maður spilar í fyrsta sinn.

Erfiðasta höggið: Það eru ca 20 m „chippin“ sem ég er alltaf smeyk við.             

Ég hlusta á: Allt frá Rammstein á kraftlyftingaæfingu til jazz heima við.

Besta skor: Langar ekki að segja það en það er víst 47 á Nesinu.En það stendur nú allt til bóta og ætla að fara að skrá meira.

Besti kylfingurinn: Margir frábærir og ég er heppin að geta fylgst með strákunum í meistaraflokknum á Nesinu sem eru hrikalega flottir. En auðvitað eru atvinnukylfingar landsins allir bestir. Á heimsvísu hlýtur það þó að vera Tiger Woods.

Golfpokinn

Dræver: Hef verið með Lynx en er nú að prófa mig áfram með gamla dræver sonarins sem er TSi1.

Brautartré: 3 tré Callaway paradym. Við erum ekki góðir vinir eins og er en það dettur inn öðru hvoru. Langar hins vegar í 5 brautartré.

Járn: Ping járn 6,7,8,9

Fleygjárn:  Ping PW og 54°

Pútter: Gamli Ping pútterinn frá syninum.

Hanski: FJ dökkblár

Skór: FJ frá Prósjoppunni, keyptir í fyrrasumar.

Signý Vala ásamt Skarphéðni syni sínum og eiginmanninum Þóri Skarphéðinssyni.

Signý með Skarphéðni syni sínum, sem fór ekki nema tvisvar sinnum holu í höggi í fyrra...