Lynn vann upp sex högg á lokadeginum og sigraði
Englendingurinn David Lynn vann upp sex högg á lokadeginum á Portugal Masters og tryggði sér sigur með því að leika lokahringinn á 63 höggum á Oceânico Victoria á Algarve í Portúgal. Hann lék samtals á 18 höggum undir pari og var einu höggi betri en Justin Walters.
Lokastaðan:
Þetta er í annað sinn sem Lynn sigrar á móti á Evrópumótaröðinni og náði hann að koma sér í hóp 50 efstu á heimslistanum með þessum sigri. Þess má geta að hann fagnar fertugsafmæli sínu í næstu viku. Lynn er þaulreyndur atvinnumaður sem hefur leikið á um 400 atvinnumótum en hann hefur einu sinni endað í öðru sæti á PGA meistaramótinu
Walters náði að tryggja keppnisrétt sinn á næsta ári á Evrópumótaröðinni með árangri sínum á þessu móti. Suður-Afríkumaðurinn var í 126. sæti á peningalistanum fyrir mótið í Portúgal og leyndi hann ekki gleði sinni eftir mótið.
Paul Waring frá Englandi var með tveggja högga forskot fyrir lokadaginn en hann fékk skramba á 16. braut á lokadeginum og gerði út um vonir sínar um sigur. Hann deildi þriðja sætinu með Skotanum Stephen Gallacher og Bernd Wiesberger frá Austurríki.