Fréttir

MacIntyre nálgast sinn besta árangur á heimslistanum þrátt fyrir að vera í fríi
Robert MacIntyre.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 10. janúar 2021 kl. 21:58

MacIntyre nálgast sinn besta árangur á heimslistanum þrátt fyrir að vera í fríi

Útreikningur á stigum sem gilda á heimslistanum í golf geta oft verið ansi flóknir og furða menn sig stundum á því hvernig kylfingar færast til á listanum.

Skotinn Robert MacIntyre hefur ekki leikið golf síðan á DP World Tour meistaramótinu sem var lokamót 2020 tímabilsins á Evrópumótaröð karla og var mótið haldið í byrjun desember. Síðan þá hefur MacIntyre ekki leikið í neinu móti en hefur engu að síður farið upp um fjögur sæti síðan hann lék síðast í móti.

Hann situr því eins og staðan er í dag í 53. sæti heimslistans og hafa sérfræðingar heimslistans nú reiknað út að hann mun fara upp um eitt sæti á morgun þegar nýr heimslisti verður birtur. Hann verður því kominn í 52. sætið og það eru enn 11 dagar í að hann hefji tímabilið sitt.

Það getur því vel verið að MacIntyre verði kominn á meðal 50 efstu áður en hann hefur leik á Abu Dhabi HSBC meistaramótinu. Þess má til gamans geta að hann hefur hæst komist í 51. sætið og gæti hann því bætt þann árangur án þess að snerta kylfurnar sínar.