Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

Matsuyama jafnaði vallarmetið á TPC Sawgrass
Hideki Matsuyama.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 12. mars 2020 kl. 19:02

Matsuyama jafnaði vallarmetið á TPC Sawgrass

Fyrsti hringur Players meistaramótsins er í fullum gangi og er um helmingu keppenda enn úti á velli. Hideki Matsuyama er í efsta sætinu eftir frábæran hring upp á 63 högg þar sem að hann jafnaði vallarmetið á TPC Sawgrass vellinum.

Matsuyama var í morgunhópnum og lauk hann því leik fyrr í dag. Hann hóf leik á 10. holu og byrjaði daginn á fjórum fuglum í röð. Á 18. holunni fékk hann svo skolla og var hann þá aðeins á þremur höggum undir pari eftir níu holur. Eftir fjórar holur á seinni níu holunum var hann aðeins búinn að bæta við einum fugli en þá kom kafli þar sem hann fékk þrjá fugla í röð og eitt par. Hann endaði svo daginn á erni og kom því í hús á níu höggum undir pari.

Hann er níundi kylfingurinn sem leikur völlinn á 63 höggum en það var Fred Couples sem gerði það fyrst árið 1992. 

Kylfingar sem hafa leikið TPC Sawgrass á 63 höggum:

Fred Couples (1992)
Greg Norman (1994)
Roberto Castro (2013)
Martin Kaymer (2014)
Jason Day (2016)
Colt Knost (2016)
Webb Simpson (2018)
Brooks Koepka (2018)
Hideki Matsuyama (2020)