Örninn/kerrur
Örninn/kerrur

Fréttir

McIlroy: Eitthvað sem ég hef ekki gert oft undanfarnar vikur
Rory McIlroy. Mynd: golfsupport.nl
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 1. nóvember 2019 kl. 20:00

McIlroy: Eitthvað sem ég hef ekki gert oft undanfarnar vikur

Rory McIlroy er í öðru sæti eftir tvo hringi á HSBC heimsmótinu sem fer fram í Kína. McIlroy er á 10 höggum undir pari, höggi á eftir Englendingnum Matt Fitzpatrick sem er í forystu.

McIlroy hefur sjö sinnum endað í öðru sæti á Evrópumótaröðinni frá því hann sigraði síðast á Opna írska mótinu árið 2016 en hann er ánægður að vera kominn í toppbaráttuna strax á fyrstu hringjunum í móti helgarinnar.

„Ég er ánægður með fyrstu tvo hringina. Að vera kominn í baráttuna áður en ég fer inn í helgina er eitthvað sem ég vildi gera.

Þetta er eitthvað sem ég hef ekki gert oft undanfarnar vikur. Ég hef byrjað frekar illa og komið mér aftur í fína stöðu í lok mótanna en að vera vel inni í mótinu eftir tvo daga er spennandi.

Stutta spilið mitt hefur verið mjög gott sem tekur pressu af langa spilinu. Ég get verið aðeins rólegri í löngu höggunum, reynt við fleiri pinna og verið aðeins ákveðnari og þess vegna hef ég verið að koma mér nálægt og komist í mörg færi á fuglum.

Ef ég slæ lélegt högg get ég treyst á sutta spilið og ég hef verið að bjarga mér vel undanfarnar vikur. Allt þetta hefur verið lykillinn að því að ég hef verið að spila á svona lágu skori.“

Staða efstu manna á HSBC meistaramótinu:

1. 133 högg M Fitzpatrick (Eng) 66 67,
2. 134 högg R McIlroy (Nir) 67 67,
3. 135 högg X Schauffele (USA) 66 69, S Im (Kor) 66 69, A Scott (Aus) 66 69,
6. 136 högg L Haotong (Chn) 64 72, V Perez (Fra) 65 71,

Myndband af helstu tilþrifum McIlroy á öðrum keppnisdeginum má sjá hér fyrir neðan: