Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

McIlroy: Hlutir sem ég vil vinna í fyrir næsta ár
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 17. nóvember 2020 kl. 08:15

McIlroy: Hlutir sem ég vil vinna í fyrir næsta ár

Norður-Írinn Rory McIlroy endaði í 5. sæti á Masters mótinu sem fór fram um helgina á Augusta National vellinum í Georgíu. McIlroy, sem hefur nú haft sex tækifæri til að klára grandslemmuna, kastaði mótinu nánast frá sér þegar hann lék fyrsta hringinn á 75 höggum en þá var hann 10 höggum á eftir Dustin Johnson sem stóð uppi sem sigurvegari.

Hinn 31 árs gamli McIlroy er nú á leið í kærkomna pásu en hann ætlar sér að nýta tímann vel enda styttist í næsta risamót sem fer fram í apríl, Masters mótið.

„Járnaspilið mitt hefur ekki verið frábært eftir að ég kom til baka eftir útgöngubannið. Það skiptir í raun ekki máli hvaða kylfa það er, það er alveg frá fleygjárnunum og upp í löngu járnin,“  sagði McIlroy.

„Ég ætla að slaka vel á næstu mánuði. Það verður mjög þægilegt. Slaka á við sundlaugina, komast aftur á hjólið, aftur á Peloton tækið. Það hefur mætt afgangi undanfarna mánuði.

Augljóslega mun ég halda áfram að fylgjast með dóttur minni vaxa og njóta þess. Ég mun reyna að komast aðeins frá því [golfinu] en það eru hlutir í golfleiknum mínum sem ég vil vinna í fyrir næsta ár.“