Fréttir

Mickelson ekki á meðal 50 efstu í fyrsta sinn í 26 ár
Phil Mickelson
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
mánudaginn 4. nóvember 2019 kl. 16:00

Mickelson ekki á meðal 50 efstu í fyrsta sinn í 26 ár

Það dró til tíðinda þegar nýr heimslisti karla var birtur í gær en í fyrsta sinn í 26 ár er Phil Mickelson ekki á meðal 50 bestu kylfinga heims. Það var í lok nóvember árið 1993 sem Mickelson komst fyrst á meðal 50 efstu kylfinga á heimslistanum en hann sat þá í 47. sæti listans eftir að hafa endað í 2. sæti á Casio World Open mótinu. Mickelson hefur verið á meðal 50 efstu allar götur síðan, í 1.354 vikur samfleytt, allt þar til nýr listi var birtur í gær þar sem Mickelson situr í 51. sæti listans.

Til þess að setja aðeins í samhengi hversu lengi Mickelson hefur verið á meðal 50 efstu þá hafði Tiger Woods til að mynda ekki unnið eitt einasta mót á PGA mótaröðinni þegar Mickelson komst inn á topp 50. Jon Rahm var heldur ekki fæddur og heildar verðlaunaféð á PGA mótaröðinni var 540.000 dollarar eða tæpar 67 milljónir króna á gengi dagsins í dag. Heildar verðlaunaféð á mótaröðinni árið 2019 er aftur á móti 15 milljónir dollara eða tæpir tveir milljarðar króna. 

Mickelson, sem er 49 ára gamall, vann sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni í janúar árið 1991 og síðast vann hann í febrúar á þessu ári. Það eru því um 28 ár á milli fyrsta og síðasta sigurs hans á PGA mótaröðinni en það gætu orðið mun fleiri ár þar sem Mickelson er enn í fullu fjöri.