Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Minjee Lee sigraði undir flóðljósunum í Dúbaí
Minjee Lee. Mynd: Ladieseuropeantour.com
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 6. nóvember 2020 kl. 22:14

Minjee Lee sigraði undir flóðljósunum í Dúbaí

Ástralski kylfingurinn Minjee Lee sigraði í fyrsta sinn á Evrópumótaröð kvenna í golfi í dag. Sigurinn kom á Omega Dubai Moonlight Classic mótinu en hún sigraði eftir bráðabana gegn Frakkanum Celine Boutier.

Lee og Boutier léku báðar hringina þrjá á 10 höggum undir pari og héldu því áfram í bráðabana sem fór fram á 18. holu undir flóðljósunum í Dúbaí. Hin 24 ára gamla Lee setti þar niður frábært fuglapútt og tryggði sér sigurinn.

„Þetta ár hefur verið erfitt en þetta er ágætis leið til að klára það,“ sagði Minjee Lee eftir sigurinn. „Ég hafði mjög gaman af leikfyrirkomulaginu þessa vikuna, þetta er í annað skiptið sem ég leik næturgolf og það verður svo sannarlega eftirminnilegt.“

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.

Lokastaða efstu kylfinga:

1. Minjee Lee, -10 (sigur eftir bráðabana)
2. Celine Boutier, -10
3. Laura Fuenfstueck, -9
3. Nuria Iturrioz, -9
3. Caroline Hedwall, -9