Fréttir

Mun Herra Ryder rústa EurAsia bikarnum?
Mánudagur 11. janúar 2016 kl. 14:33

Mun Herra Ryder rústa EurAsia bikarnum?

Leikið verður um EurAsia bikarinn næstu helgi en þar mætast úrvalslið Evrópu og Asíu. Þetta er í annað sinn sem að leikið er um bikarinn og því vilja bæði lið sanna sig.

Lið Evrópu verður þó að teljast sigurstranglegra og verður þetta mikilvæg æfing fyrir liðið en flestir keppendurnir stefna að því að verða hluti af Ryder liði Evrópu í haust.

Einn besti holukeppnismaður í golfheiminum, Ian Poulter, verður að sjálfsögðu með en hann hefur alltaf blómstrað í Ryder bikarnum. Árangur hans og ástríða í keppninni hefur gefið honum viðurnefnið Herra Ryder og það er spurning hvort hann nái að galdra fram slíka frammistöðu í þessari nýju og spennandi keppni.

Poulter mun að minnsta kosti koma með líf í bikarinn en auk hans er Evrópuliðið fullt af stórstjörnum.