Fréttir

Myndband: Ótrúlegar sögur af mönnum sem komust inn á Evrópumótaröðina í dag
Rikard Karlberg.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 20. nóvember 2019 kl. 18:19

Myndband: Ótrúlegar sögur af mönnum sem komust inn á Evrópumótaröðina í dag

Eins og kom fram fyrr í dag voru 28 kylfingar sem tryggði sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni á lokaúrtökumótinu sem lauk í dag. Það var Daninn Benjamin Poke sem endaði efstur, sex höggum á undan næsta kylfingi.

Lokaúrtökumótinu fylgir oft mikil dramatík og miklar tilfinningar en ofast er það hjá kylfingum sem rétt komust inn. Annað hvort með frábærum lokahring eða frábæru lokahöggi.

Svíinn Rikard Karlberg, sigurvegari Opna Ítalska mótsins á Evrópumótaröðinni árið 2015, hefur lent í miklum hremmingum síðustu ár. Sýking leiddi til þess að hann var frá leiknum í 18 mánuði og glímdi við þunglyndi í framhaldi af því.

Karlberg hefur unnið úr sínum málum og mætti á 18. holuna í dag einu höggi frá því að komast áfram. Hann sló þriðja höggið á lokaholunni sem er par 5 hola um 15 metra frá holunni og gerði hann sér lítið fyrir og setti púttið ofan í. Eins og sést á myndbandinu hér að neðan fagnaði hann vel og innilega enda búinn að tryggja sig inn á Evrópumótaröðina.

Bradley Dredge mætti á lokaholuna í sömu stöðu og Karlberg. Hann gerði sér lítið fyrir og sló 3-tréið sitt um þrjá metra frá holu og fékk örn á holuna til að enda á 13. höggum undir pari. Dave Coupland fékk fugl á síðustu tvö holurnar til að enda á 13 höggum undir pari og Sihwan Kim lék lokahringinn á 63 höggum, eða átta höggum undir pari, og fór hann upp um 38 sæti og endaði á 13 höggum undir pari.

Bandaríkjamaðurinn Johannes Veerman byrjaði mótið illa. Hann var á fimm höggum yfir pari eftir tvo hringi en hringir upp á 67-67-66-66 skiluðu honum í hús á samtals 14 höggum undir pari og komast hann áfram.

Tengdar fréttir:

Úrtökumótin: 28 tryggðu sér sæti á Evrópumótaröð karla