Fréttir

Nelly Korda úr leik vegna meiðsla
Nelly Korda.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 10. október 2020 kl. 12:00

Nelly Korda úr leik vegna meiðsla

Næst efsti kylfingur heimslista kvenna í golfi, Nelly Korda, er hætt keppni á KPMG PGA meistaramótinu sem fer fram um þessar mundir á LPGA mótaröðinni. Mótið er þriðja risamót ársins í kvennagolfinu.

Korda hafði leikið fyrsta hring mótsins á 71 höggi og var á meðal efstu kylfinga en fann til í bakinu og treysti sér ekki til að halda leik áfram.

„Því miður þarf ég að hætta keppni á KPMG meistaramótinu eftir fyrsta hringinn vegna óþæginda í bakinu,“ sagði hin 22 ára gamla Korda á Instagram síðu sinni.

„Ég var að vona að ég yrði betri í morgun en því miður var ég það ekki og mun nú leita til sérfræðinga. Ég vona að ég snúi fljótt aftur og óska öllum keppendum alls hins besta þessa viku.“

Korda var talin sigurstrangleg í mótinu enda þekkt fyrir mikla högglengd sem hentar vel á Aronimink golfvellinum. Þá hafði hún endað í topp-5 í síðustu þremur mótum, þar á meðal á ANA Inspiration risamótinu.