Nordic Golf: Haraldur Franklín endaði í öðru sæti á Tinderbox Challenge
Atvinnukylfingurinn Haraldur Franklín Magnús náði enn á ný frábærum árangri á Nordic Golf mótaröðinni í golfi í dag þegar hann endaði í öðru sæti á Tinderbox Challenge mótinu. Leikið var í Danmörku.
Haraldur lék hringina þrjá á 9 höggum undir pari og endaði fimm höggum á eftir Svíanum Christopher Nielsen sem stóð uppi sem sigurvegari.
Fyrir lokahringinn var Haraldur með högg í forskot á Nielsen á 10 höggum undir pari í heildina. Haraldur náði sér ekki alveg á strik á lokahringnum kom inn á höggi yfir pari. Á sama tíma lék Nielsen frábært golf, kom inn á 5 höggum undir pari og annað sætið því staðreynd hjá Haraldi.
Fyrir mótið var Haraldur í 3. sæti stigalistans og er ljóst að hann styrkir stöðu sína enn frekar með árangri síðustu daga. Efstu 5 sæti stigalistans í lok tímabils gefa fullan keppnisrétt á næst sterkustu mótaröð Evrópu, Áskorendamótaröðinni.
Árangur Haraldar það sem af er tímabili hefur verið magnaður. Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn í öllum þeim mótum sem hann hefur tekið þátt og þar á meðal endað í einu af 10 efstu sætunum í alls sex skipti. Árangur hans er eftirfarandi:
14/02/2017 Mediter Real Estate Masters - PGA Catalunya: T31
19/02/2017 PGA Catalunya Resort Championship: T41
25/02/2017 SGT Winter Series Lumine Lakes Open: T45
02/03/2017 SGT Winter Series Lumine Hills Open: T4
03/05/2017 Bravo Tours Open - by Visit Tønder: T8
18/05/2017 Stora Hotellet Bryggan Fjällbacka Open: T2
24/05/2017 Star for Life PGA Championship: T2
31/05/2017 Jyske Bank PGA Championship: T19
14/06/2017 Tinderbox Charity Challenge: 2
Ólafur Björn Loftsson komst einnig í gegnum niðurskurðinn í mótinu. Hann lék hringina þrjá á 2 höggum yfir pari í heildina og endaði í 35. sæti. Axel Bóasson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson komust ekki í gegnum niðurskurðinn.
Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.