Fréttir

Nordic Golf: Rúnar komst áfram
Rúnar Arnórsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 24. febrúar 2020 kl. 15:45

Nordic Golf: Rúnar komst áfram

Rúnar Arnórsson komst í gegnum niðurskurðinn á Lumine Hills Open mótinu sem fer fram á Nordic Golf mótaröðinni á Spáni um þessar mundir. Rúnar er á höggi undir pari eftir tvo hringi en hann lék á þremur höggum yfir pari í dag.

Leikið er á Lumine golfsvæðinu á Spáni á Hills og Lakes völlunum. Í gær lék Rúnar á Lakes vellinum sem er lengri og breiðari en í dag lék hann á Hills vellinum þar sem reynir meira á nákvæm högg af teig.

Rúnar fór vel af stað og var á tveimur höggum undir pari eftir fyrri níu en lék seinni níu á 5 höggum yfir pari. Hann situr í 21. sæti fyrir lokahringinn.

Ásamt Rúnari spiluðu þeir Bjarki Pétursson GKB og Ragnar Már Garðarsson GKG í mótinu en þeir komust ekki í gegnum niðurskurðinn. Ragnar lék hringina tvo á 6 höggum yfir pari og Bjarki á 2 höggum yfir pari. Niðurstaðan var grátleg fyrir Bjarka sem fékk tvo skolla á síðustu fjórum holum dagsins og var einu höggi frá því að komast áfram.

Lokahringur mótsins fer fram á morgun á Hills vellinum. Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.