Nýr spennandi golfáfangastaður á Spáni hjá VITA
„Við erum alltaf að leita að nýjum golf áfangastöðum fyrir okkar viðskiptavini. Í haust munum við bjóða upp á einn nýjan stað á Spáni sem ég er bjartsýnn á að verði vel tekið,“ segir Peter Salmon hjá VITA golf en nýlega sagði kylfingur.is frá Islantilla sem hefur verið vinsælasti golfáfangastaður Íslendinga í þrjá áratugi. Í næsta nágrenni við Islantilla eða um það bil 20 mínútna akstursfjarlægð er Isla Canela Golf, fjögurra stjörnu lítið boutique hótel með 58 herbergjum, sem VITAgolf mun bjóða upp á í fyrsta skipti í haust. Leikið er á tveimur mjög góðum en ólíkum golfvöllum.
Gamli völlurinn, „Old course“ Isla Canela umlykur hótelið og klúbbhúsið er hinum megin við götuna.
Breiðar 17. og 18. brautirnar eru staðsettar í kringum hótelið sjálft og það eru ekki margir metrar á 1. teig. Völlurinn var opnaður árið 1993, hannaður af Juan Catarineu og er flatur og auðveldur á fótinn en með mörgum mjög skemmtilegum brautum. Völlurinn er vel skógi vaxinn, m.a. ólífu- og appelsínutrjám. Þegar fréttamaður kylfings.is lék völlinn í apríl voru flatir mjög góðar sem og ástand vallarins. Tilfinningin við að leika völlinn í fyrsta skipti var mjög góð og það er alltaf góð vísbending. Við 9. brautina er lítil veitingasala, „halfway house“ þar sem tilvalið er að stoppa aðeins og fá sér drykk og taka stöðuna fyrir seinni 9 holurnar.
Völlurinn er fjölbreyttur, í fallegri náttúru og með útsýni. Klúbbhúsið er lítið og notalegt og matseðillinn er fjölbreyttur. Lítil golfbúð er einnig í klúbbhúsinu. Í stuttu göngufæri í nálægð við fyrstu holu er æfingasvæði með glompum og púttflöt.
Árið 2020 opnaði Isla Canela nýjan 18 holu völl. Valle Guadiana Links völlurinn er í u.þ.b. 15 mínútna akstursfjarlægð frá hóteli Isla Canela. Staðsettur á bökkum Guadiana-árinnar og með mögnuðu útsýni yfir Portúgal liggur Valle Guadiana. Skemmtilegur golfvöllur sem mun opnari en Gamli völlurinn, þar er meiri strandvallatilfinning enda heitir völlurinn Links og því góð tilbreyting í golfferð. Klúbbhúsið þar er líkt því á Isla Canela með hlýju og notalegu umhverfi og þess má geta að sami matseðill er í báðum klúbbhúsum. Í golfferðum VITA er Links völlurinn leikinn tvisvar.
Stutt í meira fjör
Miðbær Ayamonte er staðsettur í aðeins tíu mínútna fjarlægð með leigubíl og liggur við hliðin á Guadiana ánni. Ayamonte er dæmigerður heillandi spænskur bær, fullur af þröngum götum með klassískum spænskum börum, Tapas stöðum og veitingastöðum. Í aðeins tveggja kílómetra fjarlægð er einnig Isla Canela smábátahöfnin þar sem einnig er falleg strönd.
Góður matur á boutique hóteli
Hótelið við Isla Canela golfvöllinn er í spænskum stíl og skemmtilega innréttað. Morgunverðarhlaðborð er borið fram í huggulegum matsal hótelsins og á kvöldin eru matseðlar dagsins með fjórum réttum sem eru þjónaðir til borðs. Það er ólíkt því þar sem boðið er upp á hlaðborð. Hótelið er í nálægð við úrval af börum, veitingastöðum og strönd.