Fréttir

Ólafía Þórunn aftur á keppnisvöllinn
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á sínu fyrsta móti á LPGA-mótaröðinni á Bahamaeyjum árið 2017
Ólafur Pálsson
Ólafur Pálsson skrifar
þriðjudaginn 17. maí 2022 kl. 13:09

Ólafía Þórunn aftur á keppnisvöllinn

-hefur æft vel en ekki náð fyrri högglengd eða sveifluhraða. Glímdi við kulnun. Leikur á Evrópumótaröðinni 19.-21. maí

„Ég er virkilega spennt að komast aftur á keppnisvöllinn. Ég er nú venjulega ekki stressuð fyrir mót en verð að viðurkenna að ég finn fyrir smá fiðring núna,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, sem keppir aftur eftir langt hlé á Jabra Ladies Open á Evrópumótaröðinni dagana 19.-21. maí nk.

Ólafía er búsett í Þýskalandi ásamt eiginmanni sínum Thomas Bojanowski og syninum Maron, sem verður eins árs í júní á þessu ári. Hún er orðin nokkuð reynslumikil en hún vann sér inn keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni þegar hún hafnaði í 2. sæti á úrtökumóti árið 2016. Ólafía keppti á 26 mótum á sínu fyrsta keppnistímabili meðal þeirra bestu, komst í gegnum niðurskurðinn á 15 mótum og varð tvisvar sinnum meðal þeirra tuttugu efstu.

Kitlaði ekkert að fara beint að keppa við þær bestu á LPGA-mótaröðinni?

„Ég ákvað að bíða aðeins með að reyna mig á ný í Bandaríkjunum – því ég er með takmarkað aðgengi að mótum á LPGA-mótaröðinni. Þar sem ég er einnig með takmarkaðan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni frá því ég lék á henni á sínum tíma fannst mér ákveðin skynsemi í að taka mótin sem eru í boði hér í Evrópu og geta keyrt á þau,“ segir Ólafía en það eru rúm sex ár síðan hún tryggði sér keppnisrétt á mótaröð þeirra bestu í Evrópu.

Fyrsta mótið fer fram á Evian vellinum í Frakklandi, sem er bæði erfiður og krefjandi keppnisvöllur og þá er hann ekki léttur að ganga. En hvernig leggst það í okkar konu, sem hefur ekki keppt á atvinnumannamóti síðan haustið 2020?

„Já, einmitt. Þetta hefur verið langt hlé. Ég keppti síðast á Evrópumótaröðinni í Sviss í september 2020 og fór ekki að æfa aftur reglulega fyrr en í lok árs 2021. Ég hef verið að æfa mest á velli hér í Þýskalandi sem er hæðóttur og þungur á fótinn, svo ég vona að það hjálpi mér í Frakklandi. Ég er einnig komin inn í mótið í Belgíu í næstu viku og vonandi kemst ég inn í sem flest mót. Ég ætla mér a.m.k. að nýta tækifærin sem ég fæ eins vel og ég get.“

Ólafía Þórunn á VP Bank Swiss Ladies Open í september 2020

Besti árangur Ólafíu kom á fyrsta keppnisárinu á LPGA-mótaröðinn árið 2017. Hún hafnaði í 13. sæti á Ladies Scottish Open og í 4. sæti á Indy Women in Tech Championship og vann sér inn tæplega 220.000 Bandaríkjadali á keppnistímabilinu. Ólafía hafnaði í 74. sæti á stigalista mótaraðarinnar. Henni tókst ekki að fylgja þessum góða árangri eftir og það reyndi því á okkar konu á öðru árinu.

En hvernig horfir Ólafía Þórunn sjálf á LPGA-ferilinn til þessa?

„Á fyrsta árinu var mjög mikið álag og mikið af mótum. Það var auðvitað allt nýtt og í hverri viku spilaði maður nýjan völl og þá var maður alltaf að spila með nýjum stjörnum og það gat verið svolítið skrítið. En ég stóð mig mjög vel og var andlega sterk. Allir þættir leiks míns voru einhvern veginn inni, hvort sem það var slátturinn, vippin eða púttin. Annað árið var í raun mjög svipað og fyrsta árið fyrir utan að ég komst inn á aðeins færri mót þar sem ég komst ekki inn á mótin í Asíu. Það ár var pínulítið stöngin út og ég var mjög oft bara einu höggi frá niðurskurðinum. Mér leið sjálfri eins og ég væri að spila alveg eins þó árangurinn hafi ekki verið jafn góður.“

„Eftir annað árið glímdi ég við smá kulnun og það gat verið erfitt að keppa og vera að glíma við það á sama tíma því golfið er svo svakalega andlegt sport. Það hefur verið ákveðið ferli að komast yfir það allt saman. En ég er komin á allt annan stað í dag og mér er farið að líða mjög vel með endurkomuna.“

„Síðustu æfingadagar hafa verið mjög góðir. Ég er með TrackMan og allar tölur eru á góðri leið þar. Ég slæ mun styttra en ég gerði en ég hef náð sveifluhraðanum aðeins upp og lengdunum í leiðinni. Hreyfingarnar í sveiflunni eru enn til staðar. Ég þurfti að taka tveimur kylfum meira en venjulega fyrst en nú aðeins einni kylfu meira. Ég hef fulla trú á að ég nái að lokum sömu lengdum og ég sló á sínum tíma. Þegar ég slæ boltann er tilfinningin stundum aðeins öðruvísi en sú tilfinning sem ég þekki svo vel. Ég geri líka ákveðin TrackMan test sem gefa til kynna hvað ég er u.þ.b. með í forgjöf. Þegar ég var að byrja að æfa aftur var ég skv. því að slá eins og kylfingur sem er með 4-6 í forgjöf, sem var pínu sjokk. En svo hefur þetta allt verið að koma og núna er ég að slá eins og kylfingur sem er með +3-5 í forgjöf,“ segir Ólafía.

Frá æfingu í mars á þessu ári


Ólafía segist hafa þurft að keyra til Kölnar á síðustu vikum til að komast í bestu mögulegar aðstæður til að æfa stutta spilið, „pitch“-höggin, vippin og púttin og höggin úr sandglompum.

„Ég hef farið einu sinni í viku þangað en annars verið á vellinum sem er hér nærri heimili okkar og reyni að spila 10 holur þar eins oft og ég get.“

„Ég renni auðvitað pínulítið blint í sjóinn og veit ekki alveg hvar ég stend í samanburði við aðra keppendur en ég hef æft vel, finnst ég vera vel undirbúinn og hlakka mikið til,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, að lokum.

Kylfingur fylgist vel með þeim stöllum Ólafíu Þórunni og Guðrúnu Brá á mótinu í Frakklandi.