Fréttir

Patrick Reed enn á ný í sviðsljósinu
Patrick Reed.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 7. mars 2021 kl. 13:39

Patrick Reed enn á ný í sviðsljósinu

Patrick Reed hefur verið duglegur við það að koma sér í fréttirnar fyrir það að beygja reglurnar og vilja margir meina að í öllum þessum tilfellum hafi hann einfaldlega verið að svindla. Nú er athæfi Reed aftur á vörum manna, að þessu sinni var það á öðrum degi Arnold Palmer Invitational mótsins.

Áður hafði Reed komist í fréttirnar á Bahamas þegar að hann bætti legu sínu og fékk í kjölfarið dæmt á sig víti og fyrr á þessu ári var hann sakaður um að beygja reglurnar ansi mikið á Farmers Insurance mótinu sem hann endaði á að vinna.

Að þessu sinni sló hann teighöggið sitt í kargann á áttundu holunni, sem var næst síðasta hola dagsins, og lá boltinn frekar illa. Á myndbandinu hér að neðan sést hvernig myndavélarnir færðu sig nær boltanum og sést þá til Reed vera að færa til gras. Einhverjir vilja meina að hann hafi verið að rífa gras í burtu til þess eins að bæta legu boltans. Einn Twitter-notkandi sagði að Reed væri nokkurs konar mennsk-sláttuvél (e. A human lawnmower).

Myndbandið eitt og sér sker ekki úr um það hvort hann hafi verið að bæta legu boltans en sumum er farið að finnast það skrítið hversu oft hann kemst í fréttirnar fyrir áhugaverða hegðun.