Fréttir

Pétur Óskar með draumahögg í Englandi
Sunnudagur 19. maí 2019 kl. 11:10

Pétur Óskar með draumahögg í Englandi

Pétur Óskar Sigurðsson, kylfingur í GR, gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á Rye vellinum í Englandi í gær og það var körfuboltastíll yfir högginu því boltinn lenti nokkra metra frá holunni en fékk svo skemmtilegt hliðarhopp til vinstri beint í holu. „Það var geggjað að fá svona „basket“ í Englandi,“ sagði Pétur Óskar sem er þekktur afrekskylfingur og oft tengdur við fyrirtækið ÍsAm þar sem hann stýrir golfdeild þess.

Höggið fína sló Pétur á 7. braut á Jubilee vellinum á Rye en það er annar tveggja golfvalla á þessu rúmlega aldargamla golfsvæði. Um 130 metrar voru í holuna og okkar maður tók upp fleygjárnið og hitti boltann vel með fyrrgreindum árangri.

Pétur Óskar hefur eini sinni áður náð draumahögginu en það gerði hann á 10. braut á Hvaleyrarvelli.
Með honum í hollinu voru félagar hans úr Golfklúbbi Reykjavíkur, þeir Haraldur Heimisson, Ólafur Kristinn Steinarsson og Tómas Salmon en hann er félagi í Rye golfklúbbnum.

Pétur Óskar horfir á eftir draumahögginu á 7. brautinni með félögum sínum.