Fréttir

PGA: 125 kylfingar halda áfram eftir mót helgarinnar
Sergio Garcia þarf að leika vel í vikunni.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 12. ágúst 2020 kl. 21:13

PGA: 125 kylfingar halda áfram eftir mót helgarinnar

Wyndham meistaramótið fer fram í vikunni á PGA mótaröðinni í golfi. Um er að ræða síðasta mót tímabilsins á mótaröðinni áður en FedEx lokakeppnin hefst.

Á sunnudaginn eftir mót vikunnar kemur í ljós hvaða 125 kylfingar halda áfram í lokakeppnina og eru þó nokkrir þekktir kylfingar í kringum niðurskurðinn fyrir mótið á þessu skrítna tímabili.

Á meðal þeirra sem þurfa á góðu móti að halda er Spánverjinn Sergio Garcia sem situr í 134. sæti á stigalistanum. Garcia hefur ekki leikið neitt sérstaklega á þessu ári en hann þarf líklega að enda í einu af 25 efstu sætunum á Wyndham meistaramótinu til þess að komast í lokakeppnina.

Einn þeirra sem var fyrir utan topp-125 fyrir PGA meistaramótið er Brooks Koepka. Koepka endaði hins vegar í 29. sæti og er í 92. sæti á stigalistanum í dag. Hann leikur fyrstu tvo hringi mótsins með Jordan Spieth og Webb Simpson.

Aðrir kylfingar sem þurfa að treysta á góða frammistöðu í vikunni eru til að mynda risameistararnir Charl Schwartzel, Shane Lowry og Zach Johnson.

Hér er hægt að sjá keppendalistann á Wyndham meistaramótinu.

Þekktir kylfingar við topp-125:

Tom Lewis, 120. sæti
Si Woo Kim, 121. sæti
Charl Schwartzel, 125. sæti
Zach Johnson, 129. sæti
Shane Lowry, 131. sæti
Sergio Garcia, 134. sæti


Shane Lowry sigraði á Opna mótinu í fyrra.