Fréttir

PGA: Hafði ekki gerst frá árinu 2008
Akshay Bhatia.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
föstudaginn 12. febrúar 2021 kl. 10:00

PGA: Hafði ekki gerst frá árinu 2008

Hinn 19 ára gamli Akshay Bhatia lék á alls oddi á fyrsta keppnisdegi AT&T Pebble Beach Pro-Am mótinu sem er hluti af PGA mótaröðinni í golfi. Bhatia lék á 64 höggum eða 8 höggum undir pari og er jafn í öðru sæti í mótinu.

Bhatia afrekaði eitthvað sem hafði ekki gerst á Pebble Beach frá árinu 2008 þegar hann hitti allar 18 flatir vallarins í tilætluðum höggafjölda. Flatirnar á Pebble Beach eru með þeim minnstu á PGA mótaröðinni og því er óhætt að segja að Bhatia hafi verið að slá mjög vel.

Bhatia er að spila í 10. mótinu sínu á PGA mótaröðinni frá því að hann gerðist atvinnumaður einungis 17 ára gamall. Bhatia hafði þá um nokkuð skeið verið talinn einn af bestu áhugamönnum í heimi. Ákvörðunin var að einhverju leiti umdeild en hann kaus frekar að gerast atvinnumaður en að fara í háskóla en hann sér væntanlega ekki eftir því þessa stundina