Fréttir

PGA: Herman dregur sig úr leik á fyrsta móti ársins sökum Covid-19
Jim Herman.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 2. janúar 2021 kl. 21:47

PGA: Herman dregur sig úr leik á fyrsta móti ársins sökum Covid-19

Bandaríkjamaðurinn Jim Herman hefur dregið sig úr leik á Sentry Tournament of Champions mótinu, sem hefst næsta fimmtudag, eftir að hafa fengið jákvætt úr Covid-19 prófi.

Sentry Tournament of Champions er alltaf fyrsta mót nýs árs á PGA mótaröðinni en aðeins kylfingar sem unnu mót árið á undan fá þátttökurétt á mótinu. Þátttakandalistinn er því yfirleitt fremur stuttur. Þetta árið verður samt stærsti keppendalisti í sögu mótsins en 42 kylfingar eru skráðir til leiks.

Þrír kylfingar sem hafa rétt á að leika í mótinu verða ekki með. Rory McIlroy og Tyrrell Hatton kusu að taka ekki þátt og nú síðast þurfti Herman að draga sig úr leik eftir að hafa greinst með Covid-19.

Í færstu á Twitteraðgangi sínum segir Herman að hann hafa greinst með Covid-19 og viti ekki hvort hann verði með á Sony Open mótinu sem hefst vikuna eftir Sentry Tournament of Champions mótið.