Fréttir

PGA: Justin Thomas fagnaði sínum 11. sigri
Justin Thomas.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 20. október 2019 kl. 10:25

PGA: Justin Thomas fagnaði sínum 11. sigri

Justin Thomas vann í nótt sitt 11. mót á PGA mótaröðinni þegar að hann fagnaði sigri á CJ Cup @ Nine Bridges mótinu. Lokadagurinn einkenndist af baráttu milli hans og Danny Lee en svo fór að lokum að Thomas vann með tveimur höggum.

Thomas og Lee voru jafnir fyrir lokadaginn og skiptust þeir félagar að hafa forystuna. Eftir níu holur jafnaði Thomas við Lee með fugli. Thomas komst svo höggi framúr Lee með fugli á 14. holunni. Lee tapaði svo teimur höggum í röð á holum 15 og 16 og var þá staðan ansi vænleg fyrir Thomas. Hann lét þá forystu ekki af hendi og endaði á samtals 20 höggum undir pari eftir að leika lokahringinn á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari.

Lee endaði einn í öðru sæti á 18 höggum undir pari eftir að leika á 69 höggum í nótt. Þrír kylfingar urðu svo jafnir í þriðja sæti á 15 höggum undir pari, þeir Hideki Matsuyama, Gary Woodland og Cameron Smith.

Thomas hefur gengið einstaklega vel í Asíu á sínum ferli. Þetta er annað skiptið sem hann vinnur CJ Cup mótið en hann hefur einnig unnið CIMB Classic mótið tvisvar sinnum sem haldið var í Malasíu. Fjórir af 11 sigrum hans hafa því komið í Asíu.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.