Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

PGA: Kang lék eina holu á 11 höggum
Sung Kang.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
laugardaginn 17. október 2020 kl. 22:49

PGA: Kang lék eina holu á 11 höggum

Tímabilið 2020-2021 hefur ekki byrjað vel fyrir Sung Kang. Þrátt fyrir að tímabilið sé tiltölulega ný hafið þá hefur Kang engu að síður nokkrum sinnum komist í fréttirnar fyrir slæma hringi.

Á Opna bandaríska meistaramótinu lék hann annan hring mótsins á 86 höggum. Fyrir aðeins tveimur vikum lék hann á 79 höggum á Sanderson Farms meistaramótinu. Enn á nú er Kang búinn að koma sér í fréttirnar og nú er það fyrir eina slæma holu á CJ Cup mótinu.

Hann hóf leik í dag á 10. braut og byrjaði daginn á tveimur skollum. Honum tókst að vinna sig til baka á næstu holum en þrír skollar á síðustu fjórum holunum á fyrstu níu holunum þýddi að hann var á þremur höggum yfir pari eftir níu holur. Hann byrjaði svo síðari níu holurnar á því að fá par en þá byrjaði ballið.

Á annari holu vallarins, sem var 11. hola dagsins hjá Kang, sló hann teighöggið í tré og fór því boltinn aðeins um 73 metra. Þaðan sló hann boltann rétt rúmlega 40 metra áfram en boltinn fór út af vellinum. Hann tók því víti og fjórða höggið sitt. Það högg fór aðeins um sex metra, næsta högg fór aðeins um 5 metra. Sjötta höggið fór um 180 metra en aftur endaði boltinn út af vellinum. Hann tók því áttunda höggið og náði lokst að koma boltanum á brautina. Níunda höggið endaði á flötinni og notaði hann tvö pútt.

Holuna lék hann því á 11 höggum og endaði hann hringinn á 82 höggum. Hann er eftir daginn jafn í 74. sæti á 10 höggum yfir pari.