Fréttir

Rose stefnir á þrennuna
Justin Rose. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 6. nóvember 2019 kl. 20:23

Rose stefnir á þrennuna

Englendingurinn Justin Rose hefur titil að verja í móti helgarinnar á Evrópumótaröð karla, Turkish Airlines Open. 

Rose sigraði á mótinu í fyrra eftir bráðabana gegn Kínverjanum Haotong Li en hann sigraði þar að auki árið 2017 og er því í leit að þriðja sigrinum í röð.

Með sigri á sunnudaginn gæti Rose komst í hóp með þeim Nick Faldo, Colin Montgomerie og Ian Woosnam sem eru þeir einu í sögu Evrópumótaraðarinnar sem hafa unnið sama mótið á mótaröðinni þrjú ár í röð (fyrir utan Heimsmót og risamót).

Á fyrsta hringnum leikur Rose með Bernd Wiesberger, sem situr í efsta sæti stigalistans og Shane Lowry, sem sigraði á Opna mótinu í sumar.

„Tyrkland hefur verið frábær staður fyrir mig. Ég er heppinn að hafa spilað vel hérna í hvert skipti sem ég hef komið, alveg frá árinu 2012.

Þetta er spennandi vika fyrir mig, augljóslega að reyna að ná þremur í röð sem væri eitthvað sem ég hef aldrei gert áður á ferlinum. Ætli það sé ekki markmiðið en þú getur í raun aldrei nálgast mót á þann hátt. Ég verð að mæta vel undirbúinn, leikurinn minn verður að vera í góðu standi og svo verð ég að halda mér við leikplanið.

Ég er að dræva frekar vel þessa stundina og er það líklega það besta í mínum leik ásamt púttunum. Ef ég get slegið aðeins betur með millijárnunum og kannski 5-tré ásamt löngu járnunum inn á par 5 holurnar getur maður leikið vel undir pari. Eins og alltaf í Tyrklandi er veðrið fullkomið sem býður upp á lágt skor.“