Fréttir

Rúnar efstur í úrtökumóti fyrir Nordic Golf mótaröðina
Rúnar Arnórsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 7. október 2019 kl. 15:37

Rúnar efstur í úrtökumóti fyrir Nordic Golf mótaröðina

Keilismaðurinn Rúnar Arnórsson fór vel af stað á fyrsta keppnisdegi úrtökumóts fyrir Nordic Golf mótaröðina í dag sem fer fram í Danmörku. Rúnar er efstur í mótinu en seinni hringur mótsins fer fram á morgun, þriðjudag.

Alls fékk Rúnar fjóra fugla, einn skolla og einn örn á hring dagsins og kom inn á 5 höggum undir pari. Örninn kom á hinni 526 metra löngu 16. holu sem er par 5 hola.

Auk Rúnars leika þeir Bjarki Pétursson, Aron Snær Júlíusson og Ragnar Már Garðarsson með í mótinu.

Bjarki fór einnig vel af stað og er jafn í 2. sæti á 4 höggum undir pari. Bjarki fékk fjóra fugla á hringnum og gerði engin stór mistök.

Aron Snær er jafn í 17. sæti eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á höggi yfir pari. Höggi á eftir honum er svo Ragnar Már í 25. sæti.

Seinni hringur mótsins fer fram á morgun og kemur þá í ljós hvaða 22 kylfingar halda áfram á lokastig úrtökumótanna fyrir Nordic Golf mótaröðina. Fari svo að kylfingar verði jafnir í 22. sæti verður leikinn bráðabani um síðasta sætið á lokaúrtökumótinu.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Skorkort íslenska hópsins á fyrsta keppnisdegi.