Fréttir

Sex kylfingar með á Masters í fyrsta sinn
Robert MacIntyre.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 7. apríl 2021 kl. 17:00

Sex kylfingar með á Masters í fyrsta sinn

Fyrsta risamót ársins í karlaflokki, Masters mótið, hefst á fimmtudaginn. Stærstu nöfnin í golfheiminum eru á meðal keppenda sem og ungir og efnilegir kylfingar sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppnisgolfi gegn þeim allra bestu.

Þeirra á meðal eru sex kylfingar sem munu spila á Masters móitnu í fyrsta sinn þetta árið. Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Joe Long, Robert MacIntyre, Carlos Ortiz, Charles Osborne, Tyler Strafaci og Will Zalatoris.

Hér fyrir neðan má sjá örstutta kynningu á nýliðum ársins:

Joe Long (A)

Englendingurinn Joe Long öðlaðist þátttökurétt á Masters mótinu þegar hann sigraði á British Amateur 23 ára gamall. Long hafði betur gegn vini sínum og samlanda Joe Harvey í 36 holu einvígi á Royal Birkdale vellinum.

Robert MacIntyre

Skotinn Robert MacIntyre tryggði sér þátttökurétt á Masters með því að vera á meðal 50 efstu á heimslista karla í golfi tveimur vikum fyrir mótið. MacIntyre gulltryggði stöðu sína með góðri spilamennsku á Heimsmótinu í holukeppni þar sem hann hafði meðal annars betur gegn efsta kylfingi heimslistans, Dustin Johnson.

Carlos Ortiz

Mexíkóinn Carlos Ortiz fagnaði sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni á Houston Open í fyrra og varð þar með fyrsti kylfingurinn frá Mexíkó til að sigra á síðustu 42 árum. Hinn 29 ára gamli Ortiz spilaði háskólagolf í North Texas en ólst upp á Guadalajara golfvellinum líkt og goðsögnin Lorena Ochoa.

Charles Osborne (A)

Bandaríkjamaðurinn Charles Osborne spilar háskólagolf fyrir SMU. Osborne endaði í öðru sæti á Opna bandaríska áhugamannamótinu á Bandon Dunes 2020. Árangurinn kom mörgum á óvart en hann var í 463. sæti á heimslista áhugakylfinga fyrir mótið.

Tyler Strafaci (A)

Hinn 22 ára gamli Tyler Strafaci hafði betur gegn Charles Osborne á Opna bandaríska áhugamannamótinu 2020. Auk þess að spila á Masters mótinu verður Strafaci með bandaríska liðinu í Walker bikarnum þar sem bestu áhugakylfingar heims mætast.

Will Zalatoris

Líkt og MacIntyre var Zalatoris á meðal 50 efstu á heimslista karla í golfi fyrir tveimur vikum. Þessi 24 ára gamli kylfingur frá Bandaríkjunum spilaði háskólagolf í Wake Forest og náði góðum árangri á Korn Ferry mótaröðinni árið 2020. Hann hefur nú þegar spilað á tveimur risamótum en í fyrra endaði hann í 6. sæti á Opna bandaríska mótinu.