Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

Sex kylfingar með á Masters í fyrsta sinn
Robert MacIntyre.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 7. apríl 2021 kl. 17:00

Sex kylfingar með á Masters í fyrsta sinn

Fyrsta risamót ársins í karlaflokki, Masters mótið, hefst á fimmtudaginn. Stærstu nöfnin í golfheiminum eru á meðal keppenda sem og ungir og efnilegir kylfingar sem eru að stíga sín fyrstu skref í keppnisgolfi gegn þeim allra bestu.

Þeirra á meðal eru sex kylfingar sem munu spila á Masters móitnu í fyrsta sinn þetta árið. Kylfingarnir sem um ræðir eru þeir Joe Long, Robert MacIntyre, Carlos Ortiz, Charles Osborne, Tyler Strafaci og Will Zalatoris.

Örninn 2025
Örninn 2025

Hér fyrir neðan má sjá örstutta kynningu á nýliðum ársins:

Joe Long (A)

Englendingurinn Joe Long öðlaðist þátttökurétt á Masters mótinu þegar hann sigraði á British Amateur 23 ára gamall. Long hafði betur gegn vini sínum og samlanda Joe Harvey í 36 holu einvígi á Royal Birkdale vellinum.

Robert MacIntyre

Skotinn Robert MacIntyre tryggði sér þátttökurétt á Masters með því að vera á meðal 50 efstu á heimslista karla í golfi tveimur vikum fyrir mótið. MacIntyre gulltryggði stöðu sína með góðri spilamennsku á Heimsmótinu í holukeppni þar sem hann hafði meðal annars betur gegn efsta kylfingi heimslistans, Dustin Johnson.

Carlos Ortiz

Mexíkóinn Carlos Ortiz fagnaði sínum fyrsta sigri á PGA mótaröðinni á Houston Open í fyrra og varð þar með fyrsti kylfingurinn frá Mexíkó til að sigra á síðustu 42 árum. Hinn 29 ára gamli Ortiz spilaði háskólagolf í North Texas en ólst upp á Guadalajara golfvellinum líkt og goðsögnin Lorena Ochoa.

Charles Osborne (A)

Bandaríkjamaðurinn Charles Osborne spilar háskólagolf fyrir SMU. Osborne endaði í öðru sæti á Opna bandaríska áhugamannamótinu á Bandon Dunes 2020. Árangurinn kom mörgum á óvart en hann var í 463. sæti á heimslista áhugakylfinga fyrir mótið.

Tyler Strafaci (A)

Hinn 22 ára gamli Tyler Strafaci hafði betur gegn Charles Osborne á Opna bandaríska áhugamannamótinu 2020. Auk þess að spila á Masters mótinu verður Strafaci með bandaríska liðinu í Walker bikarnum þar sem bestu áhugakylfingar heims mætast.

Will Zalatoris

Líkt og MacIntyre var Zalatoris á meðal 50 efstu á heimslista karla í golfi fyrir tveimur vikum. Þessi 24 ára gamli kylfingur frá Bandaríkjunum spilaði háskólagolf í Wake Forest og náði góðum árangri á Korn Ferry mótaröðinni árið 2020. Hann hefur nú þegar spilað á tveimur risamótum en í fyrra endaði hann í 6. sæti á Opna bandaríska mótinu.