Sex kylfingar til Þýskalands á Harder German Junior Masters
Sex íslenskir kylfingar eru meðal þátttakenda á Harder German Junior Masters mótinu sem er hluti af World Junior Series mótaröðinni. Þau Sunna Víðisdóttir GR, Andri Már Óskarsson GHR, Andri Þór Björnsson GR, Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR, Haraldur Franklín Magnús GR og Helgi Ingimundarson GR taka þátt í mótinu sem fram fer í Heddesheim í Þýskalandi.
Keppni hefst á morgun en keppt er í pilta- og stúlknaflokki. Leikið var á World Junior Series mótaröðinni á Hellu á síðasta ári og varð Haraldur Franklín stigahæstur í piltaflokki á síðasta ári. Hann vann mótið sem fram fór á Hellu og varð þriðji í Þýskalandi.
Að þessu sinni verður leikið í fjórum mótum á mótaröðinni og hefst keppni með mótinu í Þýskalandi á morgun. Einnig verður leikið í Bandaríkjunum í desember, Suður-Afríku í mars og lokamótið fer fram á Hellu í júní á næsta ári.
Hægt er að fylgjast með stöðu í piltaflokki hér og stúlknaflokki hér.
Myndir/Kylfingur.is: Á efstu myndinni er Haraldur Franklín Magnús en hann á titil að verja í mótinu. Á neðri myndinni er Guðmundur Ágúst Kristjánsson, einn af efnilegustu kylfingum landsins.