Örninn Taylor
Örninn Taylor

Fréttir

Sigur á Masters það eina sem McIlroy hugsar um
Rory McIlroy.
Laugardagur 9. febrúar 2019 kl. 17:54

Sigur á Masters það eina sem McIlroy hugsar um

Rory McIlroy hefur unnið þrjú af risamótunum fjórum í karlagolfinu. Hann á einungis eftir að sigra á Masters mótinu en hann hefur endað í einu af 10 efstu sætunum í mótinu undanfarin fimm ár.

McIlroy er þó vongóður að hann nái á endanum að sigra á mótinu.

„Bara að gefa sjálfum mér annan möguleika og sjá hvernig ég höndla það,“ sagði McIlroy í Morning Drive þættinum á Golf Channel. „Ef ég held áfram að æfa vel og gera réttu hlutina mun þetta falla með mér.“

Takist McIlroy að sigra á Masters mótinu, sem fram fer dagana 11.-14. apríl næstkomandi, verður hann aðeins sjötti maðurinn í sögunni til þess að sigra á öllum fjórum risamótunum. Það eru aðeins þeir Gene Sarazen, Gary Player, Ben Hogan, Tiger Woods og Jack Niclaus sem hafa náð þessu afreki.

„Þetta snýst allt um að koma sér í þá stöðu að eiga möguleika á sigri á seinni níu holunum á sunudeginum og það er það eina sem ég hugsa um.

Augljóslega væri ég til í að ná stóru slemmunni áður en ég verð þrítugur en ef maður lítur á nokkra af bestu kylfingum allra tíma þá unnu þeir ekki risamót fyrr en þeir voru komnir á fertugsaldurinn. Þannig að ég hef nægan tíma.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is