Sigurður Arnar tryggði sér sigurinn á seinni níu
„Mót vinnast á stutta spilinu“
Sigurður Arnar Garðarsson úr GKG sigraði á fyrsta móti GSÍ mótaraðarinnar, B59 Hotel mótinu á Akranesi í dag. Sigurður Arnar lék samtals á 207 höggum (67-72-68) eða á 9 höggum undir pari Garðavallar, þremur höggum betur en Axel Bóasson úr GK. Ingi Þór Ólafson úr GM hafnaði í þriðja sæti, tveimur höggum á eftir Axel. Aron Snær Júlíusson úr GKG, sem deildi öðru sætinu með Sigurði Arnari fyrir lokahringinn, hafnaði í fjórða sæti á 3 höggum undir pari.
GSÍ mótaröðin samanstendur af sex mótum í sumar en þar á meðal eru Íslandsmótið í holukeppni og Íslandsmótið í golfi sem fram fer í Vestmannaeyjum í ágúst. Stigameistari GSÍ verður krýndur 20. ágúst að loknum Korpubikarnum.
Axel Bóasson átti eitt högg á þá Sigurð Arnar og Aron Snæ fyrir lokahringinn. Aron Snær náði eins höggs forskoti á Axel þegar hann fékk fugl á 2. braut á meðan Axel fékk skolla. Aron tapaði tveimur höggum strax á 3. braut og Axel fékk par en Sigurður Arnar fékk fugl og tyllti sér á toppinn. Axel jafnaði við Sigurð á 4. braut með fugli þegar Sigurður fékk par en Sigurður náði aftur forystunni með fugli á 6. braut á meðan Axel fékk par. Skolli á 8. braut hjá Sigurði Arnari og par hjá Axel þýddu að þeir komu jafnir í hús eftir fyrri níu holurnar á samtals 6 höggum undir pari. Aron Snær kom á sama tíma í hús á samtals 5 höggum undir pari.
Sigurður Arnar og Axel fengu báðir fugl á 10. braut en Sigurður Arnar tók aftur forystuna með fugli á 11. braut á meðan Axel fékk par. Axel jafnaði við Sigurð með fugli á 13. braut þegar Sigurður fékk par. Axel tapaði höggi á 14. braut en Sigurður Arnar fékk par og var aftur kominn með yfirhöndina. Axel fékk par á bæði 15. og 16. braut á meðan Sigurður fékk tvo fugla og var því kominn með þriggja högga forskot á samtals 10 höggum undir pari þegar tvær holur voru eftir. Á þeim tíma hafði Aron Snær tapað tveimur höggum á seinni níu holunum og var samtals á 3 höggum undir pari, sjö höggum á eftir Sigurði Arnari og fjórum höggum á eftir Axel. Þeir Sigurður Arnar og Axel fengu báðir par á 17. braut og skolla á braut. Sigurður Arnar sigraði því með þriggja högga mun. Ingi Þór Ólafson lék á 69 höggum annan daginn í röð og læddi sér upp í þriðja sætið á milli Axels og Arons Snæs á samtals 4 höggum undir pari.




Í stuttu spjalli við Kylfing að móti loknu sagði Sigurður Arnar að hann hafi unnið mótið á flötunum.
„Ég var að pútta mjög vel. Völlurinn er í mjög flottu standi og nokkrar flatir eru virkilega flottar. Mót vinnast á stutta spilinu,“ sagði Sigurður Arnar.
Sigurður sagði að þó það hafi komið mikill vindur inn á milli þá hafi vindáttin yfirleitt verið sú sama svo hann vissi alltaf hvaða högg hann væri að fara að slá.
Sigurður hefur verið að reyna fyrir sér á Ecco-mótaröðinni (Nordic Golf Tour) í vor en hann segist ætla að spila hér á landi í sumar.
„Ég tek sumarið hérna heima og fer svo aftur á Ecco-mótaröðina í ágúst og september reikna ég með. Ég stefni svo á úrtökumót fyrir Evrópumótaröðina síðar í haust.“

Sigurður Arnar er nýorðinn tvítugur en hann er með skýr markmið.
„Ég er með þriggja ára áætlun um að komast inn á Áskorendamótaröð Evrópu. Ég vil feta í fótspor Axels og fleiri stráka sem hafa komist inn á Áskorendamótaröðina. Það hefur verið mjög gaman að ferðast og spila með bæði Axel og Aroni Snæ félaga mínum úr GKG. Þeir eru toppgæjar sem ég lít upp til og get lært mikið af,“ segir hinn efnilegi, Sigurður Arnar Garðarsson, að lokum.