Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

Fréttir

Skemmdir unnar á Hólmsvelli í Leiru
Það er ljótt að sjá ummerkin eftir einn eða fleiri bíla á golfvellinum. Myndir/GS
Laugardagur 25. maí 2024 kl. 13:21

Skemmdir unnar á Hólmsvelli í Leiru

Talsverðar skemmdir blöstu við starfsmönnum Golfklúbbs Suðurnesja þegar þeir mættu til vinnu sína á golfvellinum í morgun. Djúp för voru eftir bíla sem höfðu ekið inn á völlinn og yfir svæði sem átti að byrja að tyrfa eftir helgi en mikil vinna hefur farið í að undirbúa Hólmsvöll fyrir Íslandsmótið í golfi síðar í sumar.

Að sögn Birkis Þór Karlssonar, vallarstjóra á Hólmsvelli, lítur út fyrir að skemmdirnar á vellinum hafi verið unnar í gær en veður var afleitt þá og hvorki starfsmenn né kylfingar á vellinum.

Örninn sumar 2024
Örninn sumar 2024

„Það er búið að vera að vinna mikið í vellinum og hliðið ólæst svo ekkert hefur stoppað þá sem fóru um svæðið í gær,“ sagði Birkir og finnst líklegast að um ferðamenn sé að ræða sem hafi ekki vitað hvert þeir væru að fara. „Þetta eru talsverðar skemmdir en við ættum að ná að jafna svæðið undir tyrfingu á einum degi með gröfu. Ég er bara feginn að þessir aðilar hafi bara farið lítillega inn á það svæði sem búið var að sá í, líklega ekki nema fimmtíu til sjötíu metra, en það var sáð í það svæðið fyrr í þessum mánuði.

Við erum búnir að koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Það eru komnir stórir steinar sem girða svæðið af, ég held að enginn fari út í það að reyna að færa þá,“ sagði Birkir að lokum.

Myndirnar sem fylgja fréttinni sýna vel hversu ljót aðkoman hefur verið í morgun.