Fréttir

Spennandi lokahringur framundan á Kýpur
Johannes Veerman er einn 19 kylfinga sem leika til úrslita á sunnudaginn. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 7. nóvember 2020 kl. 21:41

Spennandi lokahringur framundan á Kýpur

Eftir þriðja daginn á Aphrodite Hills Cyprus Shootdown er ljóst hvaða 19 kylfingar leika til úrslita á sunnudaginn en mótið er hluti af Evrópumótaröð karla í golfi.

Aphrodite Hills Cyprus Shootdown hófst á fimmtudaginn og er mótið nokkuð sérstakt að því leyti að eftir tvo og þrjá hringi byrja efstu kylfingarnir á sama skori.

Fyrr í dag varð ljóst hvaða 32 kylfingar kylfingar héldu áfram eftir tvo hringi. Þeir spiluðu svo í dag í eins konar einvígi þar sem einungis 19 kylfingar héldu áfram. Niðurskurðurinn miðaðist við 16 efstu og þá sem voru jafnir á því skori en til að komast áfram í dag þurfti að leika á 3 höggum undir pari eða betra skori.

Johannes Veerman og Matt Jordan léku best á þriðja deginum og komu inn á 64 höggum. Þrátt fyrir það byrja þeir á parinu líkt og hinir 17 kylfingarnir sem komust áfram og berjast um sigurinn á morgun.

Jamie Donaldson, sem leiddi eftir tvo hringi, er einn af þeim 19 kylfingum sem komust áfram en hann lék á 65 höggum í dag og verður að teljast líklegur til sigurs á sunnudaginn.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.