Fréttir

Spieth: Þetta var mjög gott fyrir sjálfstraustið
Jordan Spieth.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 11. febrúar 2021 kl. 18:43

Spieth: Þetta var mjög gott fyrir sjálfstraustið

Jordan Spieth náði sínum besta árangri á PGA mótaröðinni í 21 mánuð um síðustu helgi þegar hann endaði í 4. sæti á WM Phoenix Open mótinu. Spieth, sem var á tíma efsti kylfingur heimslistans, hefur átt erfitt undanfarin ár.

„Þetta var mjög gott fyrir sjálfstraustið,“ sagði Spieth á miðvikudaginn. „Ég elska að ég hafi treyst því sem ég var að gera alla fjóra hringina vitandi það að leikurinn væri samt ekki alveg kominn á þann stað sem ég vil.

Þetta fær mig til að vilja vinna vel í vikunni og reyna að koma mér í sömu stöðu því ég veit að ef þú heldur áfram að koma þér í svona stöðu ferðu að slá nær og boltinn dettur oftar á sunnudegi. Mér leið ekki eins og ég hafi unnið [innsk. blaðamanns: þrátt fyrir góðan árangur]. Ég var frekar vonsvikinn að ég hafi ekki unnið.“

Aðspurður um þróunina á golfinu hans undanfarin ár sagði Spieth að ekki væri ein augljós ástæða fyrir því.

„Þú ferð út og leggur þig allan fram en ef þú í fyrsta lagi treystir ekki því sem þú ert að gera og í öðru lagi ert mögulega ekki að gera þá hluti sem þú þarft að gera ertu að eyða tíma án þess að verða betri.

En þegar þú ert farinn að sjá ljós við enda ganganna og færð smá sjálfstraust langar þig að halda áfram og snúa þróuninni við.“

Spieth er þó meðvitaður um að eitt gott mót snúi ekki öllu við.

„Það þýðir ekki að ég muni ná miklum árangri strax. Ég náði góðum árangri í síðustu viku en fyrir mér snýst þetta meira um tilfinninguna en úrslitin og ég veit að þegar mér líður vel fylgja úrslitin.“