Fréttir

Staðan á stigalista GSÍ mótaraðarinnar eftir tvö mót
Ragnhildur Kristinsdóttir og Dagbjartur Sigurbrandsson. Mynd: Björgvin Franz Björgvinsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
mánudaginn 10. júní 2019 kl. 18:46

Staðan á stigalista GSÍ mótaraðarinnar eftir tvö mót

Eftir tvö mót á Mótaröð þeirra bestu eru línur farnar að skýrast. Í karlaflokki er Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, með afgerandi forystu en baráttan er harðari í kvennaflokki.

Hinn 16 ára gamli Dagbjartur hefur slegið í gegn í byrjun tímabils en auk þess að vera kominn með lægstu forgjöfina á mótaröðinni er hann búinn að vinna bæði mótin. Í Þorlákshöfn hafði Dagbjartur betur gegn Sigurði Arnari Garðarssyni á lokaholunni en í Mosfellsbæ um helgina sigraði hann með fjögurra högga mun.

Ólafur Björn Loftsson er í öðru sæti á stigalistanum en hann hefur endað í 4. sæti í báðum mótunum. Ragnar Már Ríkarðsson er svo í 3. sæti eftir að hafa endað tvisvar í einu af 10 efstu sætunum.

Í kvennaflokki er það sigurvegari helgarinnar, Ragnhildur Kristinsdóttir sem leiðir með 1632 stig. Ragnhildur er með nauma forystu á Heiðrúnu Önnu Hlynsdóttur sem sigraði á fyrsta mótinu í Þorlákshöfn.

Helga Kristín Einarsdóttir er í þriðja sæti en hún er eini kvenkylfingurinn sem hefur endað í topp-3 í báðum fyrstu mótunum.

Næsta mót á Mótaröð þeirra bestu er Íslandsmótið í holukeppni þar sem 32 kylfingar hljóta þátttökurétt. Farið er eftir stigalista mótaraðarinnar frá síðasta Íslandsmóti í holukeppni ásamt því að ríkjandi Íslandsmeistarar fá þátttökurétt sem og þrír efstu Íslendingarnir á heimslista áhugamanna og atvinnumanna. Hér er hægt að sjá stigalistann fyrir Íslandsmótið í holukeppni.

Staðan í báðum flokkum eftir tvö mót á þessu tímabili má sjá hér fyrir neðan:

1 Dagbjartur Sigurbrandsson GR 2400.00
2 Ólafur Björn Loftsson GKG 1080.00
3 Ragnar Már Ríkarðsson GM 1062.00
4 Sigurður Arnar Garðarsson GKG 999.00
5 Hákon Örn Magnússon GR 936.00
6 Kristófer Karl Karlsson GM 909.00
7 Andri Þór Björnsson GR 840.00
8 Birgir Björn Magnússon GK 541.20
9 Daníel Ísak Steinarsson GK 498.60
10 Sigurður Bjarki Blumenstein GR 486.00

1 Ragnhildur Kristinsdóttir GR 1632.00
2 Heiðrún Anna Hlynsdóttir GOS 1560.00
3 Helga Kristín Einarsdóttir GK 1410.00
4 Saga Traustadóttir GR 1380.00
5 Hulda Clara Gestsdóttir GKG 1290.00
6 Andrea Ýr Ásmundsdóttir GA 912.00
7 Eva Karen Björnsdóttir GR 792.00
8 Hafdís Alda Jóhannsdóttir GK 654.00
9 Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir GR 552.00
10 Ásdís Valtýsdóttir GR 480.00