Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Stenson: Ánægður hvernig ég kláraði mótið
Henrik Stenson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 7. desember 2019 kl. 22:03

Stenson: Ánægður hvernig ég kláraði mótið

Henrik Stenson sigraði í dag á Hero World Challenge mótinu sem fór fram á PGA mótaröðinni um helgina.

Stenson lék hringina fjóra í mótinu á 18 höggum undir pari en hann var á sex höggum undir pari í dag.

Lykillinn að sigrinum í dag var frábær örn sem Stenson fékk á 15. holu þegar hann var nálægt því að fá albatross af löngu færi með 5 tré.

„Þetta voru áhugaverðar seinni níu. Ég fékk fugla á 7. og 8. holu en kom mér svo í vandræði á 9. holu og fékk skolla,“ sagði Stenson eftir sigurinn.

„Mér leið vel en á þeim tímapunkti var ég held ég höggi á eftir efsta manni. 

Svo fékk ég góðan fugl á 10. holu, setti niður bombu á 11 fyrir pari, setti niður gott fuglapútt á 13, bjargaði pari á 14 og sló svo með 5 tré um 10 sentímetra frá holu á 15.

Þá var ég kominn í forystu og þegar ég labbaði á 16. holu sá ég að Jon [Rahm] hefði endað á 17 undir þannig að ég sá að þrjú pör í lokin myndu líklega duga.

Mér tókst það, sló góð högg og það er aldrei auðvelt að tvípútta af 12 metra færi á síðustu holunni en fyrra púttið var mjög gott. Ég er ánægður hvernig ég kláraði mótið.“

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.