Fréttir

Telur Woods þann besta frá upphafi
Rory McIlroy. Mynd: GettyImages.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 11. desember 2019 kl. 16:01

Telur Woods þann besta frá upphafi

Undanfarin ár hefur myndast heit umræða um það hver besti karlkylfingur allra tíma sé. Tveir kylfingar eru iðulega nefndir í því samhengi, Tiger Woods og Jack Nicklaus.

Norður-Írinn Rory McIlroy mætti til Golf Channel á dögunum í viðtal og var hann þá spurður að því hvort að Tiger Woods væri sá besti frá upphafi.

McIlroy sagðist ekki geta mótmælt því og færði rök fyrir sínu máli.

„Tiger hefur augljóslega ekki unnið jafn marga risatitla [og Nicklaus] en hann mun vinna flest mót á PGA mótaröðinni og eiga mörg önnur met. Hann gæti enn bætt met Nicklaus en ég held að í sögu íþróttarinnar hafi enginn spilað betra golf en Tiger Woods.

Tímabilið 2000 til 2001, enginn hefur spilað golf á sama stigi og hann gerði. Þess vegna held ég að hann sé sá besti frá upphafi því enginn hefur spilað jafn vel og hann.

Mér finnst sigrarnir 82 á PGA mótaröðinni næstum því tilkomumeiri en risatitlarnir 15. Að vakna á hverjum morgni og hugsa: Jæja, ég ætla að halda áfram á minni vegferð, halda áfram að vera sá besti - og hann er enn að.“


Tiger Woods.