Prósjoppan mottumars
Prósjoppan mottumars

Fréttir

Tiger Woods slasaður eftir bílslys
Tiger Woods.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 23. febrúar 2021 kl. 21:31

Tiger Woods slasaður eftir bílslys

Bandaríkjamaðurinn Tiger Woods lenti í bílslysi í kvöld. Bíll hans valt og þurfti að nota járnklippur til að klippa hurðina af bíl hans svo hægt væri að koma honum út úr honum.

Lögreglan í Los Angeles staðfesti í kvöld að kylfingurinn magnaði hefði lent í bílslysi. Þá hefur Mark Steinberg, umboðsmaður Woods, staðfest að Woods sé á leið í aðgerð eftir að hafa lent í bílslysinu.

Í fréttatilkynningu frá lögregluembættinu segir að lögreglan hafi brugðist við árekstri fyrr í kvöld við gatnamót Rolling Hills Estates og Rancho Palos Verdes. Fór það svo að einn bíll valt og varð fyrir miklu tjóni.

Ökumaður bílsins var Tiger Woods og þurfti hann að fara á spítala til að gera að sárum hans. Ekki kemur fram hversu illa haldinn hann var. Tiger var einn í bílnum. Einnig kemur fram að aðeins einn bíll hafi verið í árekstrinum og því sakaði engan annan en kylfinginn.

Woods er ekki sagður í lífshættu en ekki er vitað hvort ferill kappans sé í hættu.