Prósjoppan
Prósjoppan

Fréttir

Titilvörn Woods fór vel af stað
Tiger Woods.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 22:10

Titilvörn Woods fór vel af stað

Fyrsti dagur Masters mótsins, loka risamót ársins, hófst í dag. Það fór ekki vel af stað fyrir skipuleggjendum mótsins en fresta þurfi leik um nokkrar klukkustundir sökum veðurs. Eftir hádegi stytti þó upp og héldu kylfingar aftur út á völl og voru skorin góð á mjúkum Augusta National vellinum.

Sigurvegari síðasta árs, Tiger Woods, fór vel af stað en hann hóf leik á 10. braut og var í miklu stuði fyrsti 10 holurnar. Eftir þær var hann á fjórum höggum undir pari. Hann paraði svo restina af holunum og kom því í hús á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari. Þetta er jöfnun á besta fyrsta hring í Masters mótinu hjá Woods en hann lék einnig á 68 höggum árið 2010 þegar að hann endaði mótið jafn í fjórða sæti.

Hringurinn var einnig sérstakur fyrir þær sakir að þetta er í fyrsta skipti sem hann lék fyrsta hringinn í Masters mótinu án þess að tapa höggi og þetta var fyrsti hringur í risamóti síðan árið 2009 sem hann tapar ekki höggi.

Woods er eftir daginn jafn í fjórða sæti.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.