Fréttir

Valdís Þóra: Virkilega leiðinlegt
Valdís Þóra Jónsdóttir. Mynd: [email protected]
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
þriðjudaginn 4. ágúst 2020 kl. 22:11

Valdís Þóra: Virkilega leiðinlegt

Þrefaldi Íslandsmeistarinn í höggleik, Valdís Þóra Jónsdóttir, verður ekki með í Íslandsmótinu í ár sem fer fram dagana 6.-9. ágúst á Hlíðavelli í Mosfellsbæ.

Ástæðan fyrir fjarverunni er sú að Valdís hefur glímt við meiðsli í baki undanfarnar vikur og bíður eftir niðurstöðum frá læknum varðandi næstu skref.

„Ég á eftir að hitta sérfræðing varðandi framhaldið og nákvæm greining á stöðunni liggur ekki enn fyrir. Ég sló ekki golfhögg í tvær vikur og þegar ég prófaði að slá á ný fékk ég verkinn á ný,“ sagði Valdís í samtali við Skagafréttir.is.

„Þetta lýsir sér þannig að þegar ég þarf að snúa líkamanum af krafti í högg sem þurfa að fara langt þá kemur þessi verkur. Svæðið þar sem verkurinn er virðist vera mjög viðkvæmt þegar ég sný af krafti upp á líkamann. Í samráði við fólkið í kringum mig þá ákváðum við að taka ekki þátt á Íslandsmótinu í golfi 2020. Það er virkilega leiðinlegt að vera í þessari stöðu,“

Valdís varð síðast Íslandsmeistari í höggleik árið 2017 en þar áður hafði hún unnið árin 2012 og 2009. Hún vonast til að vera kominn í gott form fyrir næsta tímabil á Evrópumótaröðinni.

„Svo gæti farið að ég get ekki slegið golfhögg af krafti næstu vikurnar og jafnvel langt inn í haustið – og það er ekki þess virði að taka áhættuna að halda áfram svona verkjuð. Ég ætla því að bíða eftir greiningu hjá sérfræðingi, fá rétta meðhöndlun, og byggja allt upp aftur. Ég hef tíma til þess núna á meðan ekki er verið að keppa á LET Evrópumótaröðinni. Ég þarf að vera klár þegar nýtt tímabil hefst í janúar á næsta ári.“

Tengdar fréttir:

Guðmundur Ágúst mun ekki verja titilinn
Skráningu í Íslandsmótið lýkur í kvöld
GM þarf þína aðstoð fyrir Íslandsmótið á þessum fordæmalausu tímum
Sigursælustu kylfingar Íslandsmótsins í höggleik frá upphafi
Böðvar Bragi með lægstu forgjöfina í Íslandsmótinu
Íslandsmótið í höggleik: 20 á biðlista
Nýir hvítir teigar á Hlíðavelli fyrir Íslandsmótið