Fréttir

Vallarmet hjá Wiesberger og Wattel
Bernd Wiesberger.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
sunnudaginn 8. september 2019 kl. 20:01

Vallarmet hjá Wiesberger og Wattel

Það voru frábærar aðstæður á lokadegi Porsche European Open mótsins í dag ólíkt því sem var fyrstu þrjá dagana. Fyrstu dagar mótsins einkenndust af töluverðum vind og rigningu með köflum og voru skorin eftir því. Fyrir lokadaginn voru efstu menn á níu höggum undir par og aðeins 37 hringir komnir á 69 höggum eða betur.

Á lokaeginum voru aftur á móti 28 kylfingar sem léku á 69 höggum eða betur. Bestu hringirnir komu samt frá Bernd Wiesberger og Romain Wattel. Þeir félagar léku saman í dag og virtust nærast á velgengi hvors annars. Því þeir gerðu sér lítið fyrir og komu báðir í hús á 64 höggum sem er nýtt vallarmet á Green Eagle vellinum.

Wiesberger fékk skolla á annarri holu dagsins en eftir það lék hann frábært golf, fékk níu fugla og restina pör. Wattel tapaði ekki höggi á hringnum í dag. Hann fékk sex fugla á fyrstu 13 holunum, síðan komu fjögur pör áður en að hann endaði á erni á lokaholunni. Wiesberger endaði einn í fimmta sæti á meðan Wattel endaði einn í sjötta sæti.


Romain Wattel.