Fréttir

Casey byrjaði með miklum látum
Paul Casey.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 12. nóvember 2020 kl. 22:17

Casey byrjaði með miklum látum

Englendingurinn Paul Casey lék manna besta á fyrsta degi Masters mótsins en mótið hófst í dag. Fresta þurfti leik fyrst í morgun og komust kylfingar ekki aftur út á völl fyrr en eftir hádegi. Casey nýtti sér aðstæður vel en völlurinn var blautur og mjúkur. Hann kom í hús á 65 höggum og er tveimur höggum á undan næstu mönnum.

Casey hóf leik á 10. holu í dag og fékk fjóra fugla á fyrstu níu holunum. Hann bætti svo við erni á 2. holunni og var þá kominn á sex högg undir pari. Að lokum nældi hann sér í einn fugl á sjöttu holunni og endaði því hringinn á sjö höggum undir pari.

Tveimur höggum á eftir á fimm höggum undir pari eru þeir Webb Simpson, Xander Schauffele og Justin Thomas. Simpson og Schauffele léku báðir á 67 höggum en Thomas hefur aðeins lokið við 10 holur.

Tiger Woods lék vel í dag og kom í hús á 68 höggum, eða fjórum höggum undir pari líkt og nokkrir aðrir kylfingar.

Ekki hafa allir kylfingar lokið leik og er Thomas líklegastur til að skáka Casey en eins og áður sagði hefur hann aðeins lokið við 10 holur og er á fimm höggum undir pari. Þeir Adam Scott og Dylan Frittelli eru báðir á fjórum höggum undir pari og eiga um helming hringsins eftir.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.