Fréttir

Eitt besta par í sögu PGA mótaraðarinnar leit dagsins ljós í dag
Sangmoon Bae.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
fimmtudaginn 23. júlí 2020 kl. 22:09

Eitt besta par í sögu PGA mótaraðarinnar leit dagsins ljós í dag

Sangmoon Bae fór ekki vel af stað á fyrsta hring 3M Open mótsins sem hófst í dag á PGA mótaröðinni. Hann lék hringinn á 75 höggum eða fjórum höggum yfir pari og er hann jafn í 146. sæti eftir daginn.

Árangur hans er svo sem ekki frásögu færandi en hann átti samt eflaust eitt af augnablikum fyrsta dagsins. Á lokaholunni lenti hann í því að slá upphafshöggið sitt í vatn en holan er um 550 metra löng. Eftir að taka víti reyndi Bae við flötina í þriðja högginu en tókst ekki betur en svo að hann sló aftur í vatn. Hann tók því annað víti og var að slá sitt fimmta högg enn 230 metra frá holunni.

Þá gerði hann sér lítið fyrir og sló ofan í holuna og bjargaði þar með pari. Höggið var merkilegt fyrir þær sakir að þetta er lengsta högg sem slegið er ofan í fyrir pari á PGA mótaröðinni. Fyrir átti Steven Bowditch lengsta höggið en hann sló um 160 metra löngu höggi ofan í fyrir pari árið 2011 á RBC Heritage mótinu.