Fréttir

Fleiri kylfingar draga sig úr leik vegna Covid-19 smita
Brooks Koepka.
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
miðvikudaginn 24. júní 2020 kl. 21:57

Fleiri kylfingar draga sig úr leik vegna Covid-19 smita

Eins og kom fram fyrr í dag þurftu þeir Cameron Champ og Graeme McDowell að draga sig úr leik á Travelers Championship mótinu sem hefst á morgun vegna Covid-19 smita. Champ greindist sjálfur með kórónuveiruna og svo var það kylfuberi McDowell sem greindist líka.

Nú hafa fleiri nöfn bæst í hópinn sem hafa dregið sig úr leik vegna smita. Fyrrum efsti maður heimslistans, Brooks Koepka, hefur dregið sig úr leik en kylfuberi hans, Ricky Elliot, greindist með veiruna. Sigurvegari síðustu helgar, Webb Simpson, hefur einnig dregið sig úr leik vegna þess að fjölskyldumeðlimur hans greindist með veiruna á síðasta sólarhring.

Það hafa því fjórir kylfingar dregið sig úr leik á mótinu en um síðustu helgi þurfti Nick Watney að draga sig úr leik vegna smits.

Eðli sínu samkvæmt eru fjölmiðlar farnir að velta því fyrir sér hversu lengi mótaröðin geti haldið áfram en í yfirlýsingu frá PGA mótaröðinni er stefnt að því að auka sýnatökur til að tryggja áframhaldandi keppni.


Webb Simpson.