Fréttir

Guðmundur náði aðalmarkmiði sínu á tímabilinu
Guðmundur Ágúst Kristjánsson. Mynd: golfsupport.nl.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 2. desember 2020 kl. 16:40

Guðmundur náði aðalmarkmiði sínu á tímabilinu

Tímabilinu á Áskorendamótaröðinni í golfi lauk í nóvember þegar lokamót mótaraðarinnar fór fram á Majorka. 45 kylfingar höfðu tryggt sér þátttökurétt í mótinu en þeirra á meðal var fyrrum Íslandsmeistarinn í höggleik, Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

Þetta er í annað skiptið sem Íslendingur kemst í lokamótið en Birgir Leifur Hafþórsson afrekaði það fyrstur. Guðmundur bætti hins vegar árangur Birgis og endaði í 16. sæti í lokamótinu en Birgir endaði í 37. sæti árið 2017 þegar hann spilaði í mótinu.

Aðspurður sagðist Guðmundur hafa sett sér markmið fyrir tímabilið að komast inn í lokamótið.

„Fyrir tímabilið var aðalmarkmiðið að komast inn í lokamótið því venjulega gefur það ágætis þátttökurétt á Evrópumótaröðinni. Venjulega væri tímabilið því ekki búið fyrir mig því nú hefði ég komist inn á nokkur mót á Evrópumótaröðinni,“ sagði Guðmundur og bætti við að árangurinn á Majorka hefði verið góður miðað við hvernig hann sló þá vikuna.

„Það var eitthvað að plaga mig í hendinni þannig að ég sló ekki jafn vel og venjulega en á móti setti ég öll pútt ofan í. Ég komst þetta áfram á viljastyrknum. Ég reiknaði að ég var +10,4 í Strokes gained í púttunum yfir alla fjóra dagana. Arnar Már [Ólafsson] var með mér úti og það var mjög gott að hafa hann. Við vorum að reyna að finna einhverja lausn á sveiflunni en það var lítið hægt að breyta á þessum tímapunkti.“

Besti árangur tímabilsins hjá Guðmundi kom í Norður-Írlandi þar sem hann endaði í 5. sæti. Aðstæður í mótinu voru líkar því sem gengur og gerist á Íslandi og spilaði Guðmundur þar sitt besta golf á árinu. „Ég myndi segja það já, ég hélt boltanum í leik og setti niður góð pútt. Það var rok og rigning inni á milli sem hentar mér ágætlega. Hins vegar eru flestir sem spila á Áskorendamótaröðinni öllu vanir og forskotið sem að við Íslendingar höfum á því að hafa alist upp í veðurfarinu okkar minna en margir halda.“

Næst besti árangurinn fyrir lokamótið kom tveimur vikum seinna þegar Guðmundur endaði í 18. sæti í Portúgal. Það mót var hluti af Evrópumótaröðinni og hafði hann fengið þátttökurétt fyrir stöðu sína á Áskorendamótaröðinni.

„Þar var ég aftur á móti ótrúlega stöðugur af teig og að slá mjög vel en ekki að pútta jafn vel. Í lokin tók maður aðeins sénsa til þess að koma sér upp í topp-10 til að komast inn í næsta mót á Evrópumótaröðinni sem var á sama velli og ég spilaði á Norður-Írlandi. Þá var ég líka með það í huga að bæta met Birgis Leifs á Evrópumótaröðinni [11. sæti á Ítalíu 2007].“

Aðspurður um mótin á Evrópumótaröðinni þar sem bestu kylfingar heims mæta til leiks sagðist GR-ingurinn vera búinn að venjast því. „Fyrst þegar ég fór á Nordea Masters var ég með hjartað í buxunum því ég var að slá við hlið Alex Noren á æfingasvæðinu en nú var ég við hliðina á Julian Suri og það gerði lítið fyrir mig. Núna finnst manni maður eiga heima þarna og maður á svo marga vini sem hafa unnið þarna og maður veit hvað maður getur.“

Guðmundur er nú staddur á Íslandi í fríi og reiknar með að spila næst keppnisgolf þegar Áskorendamótaröðin fer aftur af stað í febrúar. Dagskráin fyrir mótaröðina er ekki orðin klár en hún verður það á næstu dögum. Þá verður Guðmundur með sama þátttökurétt og á þessu ári þegar mótaröðin fer aftur af stað.

„Mótin verða ekki alveg jafn mörg og árið 2019 en verða þó nær því, dagskráin ætti að koma út á næstunni. Ég hef heyrt að það sé möguleiki að það verði spilað í Suður-Afríku í febrúar og svo byrji hefðbundna tímabilið í lok apríl eða byrjun maí.

Lykilatriði í þessu fyrir mig er að bæta mig ár eftir ár og geta þá spilað á Evrópumótaröðinni til þess að vera betur undirbúinn þegar að því er komið. Ég byrja næsta ár á sama stað og í byrjun árs sem er synd því þrátt fyrir að ég sé með góðan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni kemst ég oft seint inn í mótin og því getur verið erfitt að skipuleggja mig langt fram í tímann.“

Að lokum var Guðmundur spurður út í keppnistímabilið á Íslandi og hvort hann kæmi mögulega heim til að spila í Íslandsmótinu.

„Miðað við hvernig tímabilið er venjulega á Áskorendamótaröðinni eru engar auðar vikur yfir sumarið þannig að líklega verð ég bara úti. Ef valið stendur á milli móts á Áskorendamótaröðinni og Íslandsmóts myndi ég velja Áskorendamótaröðina þar sem hún gefur svo mikla möguleika á þátttöku á Evrópumótaröðinni.“

Árangur Guðmundar á tímabilinu 2020 á Áskorendamótaröðinni:

  • 11 mót
  • 5x í gegnum niðurskurðinn
  • 1 topp 10
  • Meðalskor: 72,17 högg
  • Verðlaunafé: 21.405 evrur


Guðmundur Ágúst Kristjánsson.


Alex Noren hefur meðal annars spilað í Ryder liði Evrópu.