Guðrún Brá: Gaman að jafna við pabba í fjölda titla
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Golfklúbbnum Keili og atvinnukylfingur jafnaði við Björgvin föður sinn í fjölda Íslandsmeistaratitla í golfi þegar hún tryggði sér fjórða titilinn á sínum heimavelli á Hvaleyrinni.
Guðrún var fimm höggum á eftir Huldu Clöru Gestsdóttur úr GR fyrir lokahringinn en jafnaði við hana eftir tvær holur og síðan skiptust þær á að hafa forystu og enduðu að lokum jafnar. Hún segir að það hafi verið mjög miklvægt þegar hún vann högg á Huldu á 17. braut en þá náði Guðrún frábæru höggi úr glompu sem við sýnum í myndskeiðinu. Þær voru jafnar eftir hana og sömuleiðis eftir lokabrautina. Þær þurftu því að fara í þriggja holna umspil en þar kom heimakonan sterk inn og sigraði örugglega.
„Það skipti miklu máli að byrja vel en ég fékk fugl á fyrstu tvær á meðan Hulda gerði mistök. Síðan var þetta jafnt allan tímann og ég náði svo að klára þetta í umspilinu,“ segir Guðrún m.a. í viðtalinu en hún hefur verið með takmarkaðan þátttökurétt á Evrópumótaröð kvenna á árinu og vonast til að geta fengið fleiri mót síðla sumars og í haust.