Fréttir

Im valinn nýliði ársins á PGA mótaröðinni
Sungjae Im.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
miðvikudaginn 11. september 2019 kl. 19:32

Im valinn nýliði ársins á PGA mótaröðinni

Sungjae Im hlaut í dag Arnold Palmer verðlaunin fyrir að hafa verið nýliði ársins 2019 á PGA mótaröðinni en það voru kylfingar með keppnisrétt á mótaröðinni sem tóku þátt í kosningunni.

Im, sem er 21 árs gamall, var eini nýliði mótaraðarinnar sem komst inn á TOUR Championship og endaði í 19. sæti á FedEx listanum.

Im er einungis annar kylfingurinn í sögunni sem hefur orðið nýliði ársins á PGA mótaröðinni ári eftir að hafa verið kylfingur ársins á næst sterkustu mótaröð Bandaríkjanna, Korn Ferry mótaröðinni. Sá fyrsti sem afrekaði það var Stewart Cink.

Á tímabilinu komst Im í gegnum niðurskurðinn 26 sinnum í 35 mótum. Im varð 7 sinnum meðal 10 efstu en hans besti árangur kom á Arnold Palmer Invitational mótinu þar sem hann endaði í þriðja sæti.

Valið á nýliða ársins stóð á milli Im, Cameron Champ, Adam Long, Collin Morikawa og Matthew Wolff. 

Sjá einnig:

McIlroy kylfingur ársins á PGA mótaröðinni í þriðja sinn