Fréttir

Lokahringnum aflýst hjá Guðmundi | Endaði í 9. sæti
Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
sunnudaginn 13. október 2019 kl. 15:47

Lokahringnum aflýst hjá Guðmundi | Endaði í 9. sæti

Vegna mikillar úrkomu náðu keppendur ekki að ljúka leik á fjórða og síðasta keppnisdegi Irish Challenge mótsins. Ákveðið var að skor keppenda fyrstu þrjá keppnisdagana myndi telja og því endaði Guðmundur Ágúst Kristjánsson í 9. sæti á 7 höggum undir pari.

Líkt og Kylfingur greindi frá fyrr í dag var Guðmundur farinn út á lokahringnum og var búinn að vinna högg á efstu menn áður en leik var aflýst.

Þetta er besti árangur Guðmundar á Áskorendamótaröðinni í ár og er hann nú kominn upp í 109. sæti á stigalista mótaraðarinnar þrátt fyrir að hafa einungis verið með keppnisrétt frá því í júlí.

Fyrir mót helgarinnar var besti árangur Guðmundar 13. sæti á Opna Bretagne mótinu í september.

Þeir Emilio Cuartero Blanco og Oscar Lengden, sem leiddu eftir þrjá hringi, spiluðu bráðabana um sigur í mótinu og fór svo að lokum að Blanco vann eftir fugl á þriðju holu.

Hér er hægt að sjá lokastöðuna í mótinu.