Örninn 2025
Örninn 2025

Fréttir

PGA: McIlroy hélt að hann hefði fengið tvö högg í víti
Rory McIlroy.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 10. ágúst 2019 kl. 10:43

PGA: McIlroy hélt að hann hefði fengið tvö högg í víti

Þegar Rory McIlroy lék síðustu fjórar holurnar á öðrum hringnum á Northern Trust mótinu hélt hann að klaufaleg mistök á 14. holu hefðu kostað hann tvö högg.

McIlroy var í glompu á holunni og ætlaði að fjarlægja það sem hann hélt að væri steinn en var í raun sandur. Þegar McIlroy áttaði sig á því lét hann dómara á svæðinu vita af atvikinu og fékk fyrir það tvö högg í víti.

Örninn 2025
Örninn 2025

McIlroy sætti sig við dóminn og kláraði hringinn áður en hann fékk að vita dómurinn hefði verið dreginn til baka. Rökin fyrir því voru þau að McIlroy hefði í raun ekki bætt leguna í glompunni þegar hann snerti sandinn óvart.

„Ég er tveimur höggum nær forystunni en ég hélt,“ sagði McIlroy, sem er á 9 höggum undir pari í mótinu, þremur höggum á eftir Dustin Johnson. „Í stað þess að vera 5 höggum á eftir er ég þremur höggum á eftir sem er mikill munur.“

Líklega hefði enginn tekið eftir því þegar McIlroy snerti sandinn ef McIlroy hefði ekki látið dómara vita af atvikinu.

„Ástæðan fyrir því að ég náði í einhvern var að ég vil ekki hafa neitt á samviskunni,“ sagði McIlroy. „Ég spila leikinn heiðarlega og ég get sagt það án alls vafa að ég bætti ekki leguna. Ég hélt einfaldlega að þetta væri steinn, sem þetta var ekki.“