Prósjoppan mottumars
Prósjoppan mottumars

Fréttir

PGA: Sam Burns leiðir eftir fyrsta hring
Sam Burns
Rúnar Arnórsson
Rúnar Arnórsson skrifar
föstudaginn 19. febrúar 2021 kl. 13:59

PGA: Sam Burns leiðir eftir fyrsta hring

Fyrsti hringur á Genesis Invitational mótinu á PGA mótaröðinni var leikinn í Kaliforníu ríki í Bandaríkjunum í gær. Það er heimamaðurinn Sam Burns sem leiðir eftir fyrsta hringinn en hann lék á 64 höggum í gær eða 7 höggum undir pari.

Burns byrjaði af krafti og skellti í örn strax á fyrstu holu. Hann fékk svo þrjá fugla og einn skolla á fyrri 9 holunum og lék þær því á fjórum höggum undir pari. Á seinni 9 holunum fékk hann svo annan skolla en fjóra fugla til viðbótar og endaði á 7 höggum undir pari. 

Tveir kylfingar sitja jafnir í 2. sæti á fimm höggum undir pari, tveimur höggum á eftir Burns. Það eru þeir Matthew Fitzpatrick og Max Homa. Fitzpatrick fékk örn á fyrstu holu líkt og Burns og bætti svo fjórum fuglum og einum skolla í safnið. Homa fékk á sínum hring sex fugla og einn skolla. 

Efsti maður heimslistans, Dustin Johnson, lék á þremur höggum undir pari í gær og situr jafn í 12. sæti ásamt fleiri stórum nöfnum líkt og Francesco Molinari, Brooks Koepka og Jordan Spieth.

Annar hringur mótsins hefst síðar í dag og má fylgjast með stöðu mála hér.