Fréttir

Úrtökumótin: Andri Þór á sex höggum undir pari á Desert Springs
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
fimmtudaginn 7. nóvember 2019 kl. 16:15

Úrtökumótin: Andri Þór á sex höggum undir pari á Desert Springs

Andri Þór Björnsson GR, Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR og Rúnar Arnórsson GK hófu leik í dag á 2. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem fer fram á Desert Springs vellinum á Spáni.

Íslensku strákarnir fóru allir vel af stað en Andri þó sérstaklega vel því hann lék á 6 höggum undir pari. 

Andri fékk sex fugla á hringnum og tapaði ekki höggi. Nú þegar allir kylfingar hafa lokið leik á fyrsta keppnisdegi er Andri jafn í 8. sæti en efsti maður er á 9 höggum undir pari.

Guðmndur Ágúst lék fyrsta hringinn á 4 höggum undir pari eftir einn örn, fjóra fugla og tvo skolla. Guðmundur hóf leik á 10. teig en skorkort hans má sjá hér fyrir neðan.

Skor keppenda á fyrsta keppnisdegi var gríðarlega gott og til marks um það er Rúnar í 25. sæti þrátt fyrir að hafa leikið á 2 höggum undir pari. Rúnar fékk fimm fugla, einn skolla og einn tvöfaldan skolla á hringnum og hóf leik á 10. teig eins og Guðmundur.

Eftir fjóra hringi komast um 20 kylfingar áfram á lokastig úrtökumótanna.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Sjá einnig:

Úrtökumótin: Haraldur um miðjan hóp á Alenda svæðinu
Úrtökumótin: Bjarki á tveimur yfir pari