Hellishólar
Hellishólar

Fréttir

Úrtökumótin: Andri Þór í kjörstöðu fyrir lokahringinn
Andri Þór Björnsson.
Ísak Jasonarson
Ísak Jasonarson skrifar
laugardaginn 9. nóvember 2019 kl. 14:53

Úrtökumótin: Andri Þór í kjörstöðu fyrir lokahringinn

Andri Þór Björnsson GR, Guðmundur Ágúst Kristjánsson GR og Rúnar Arnórsson GK léku í dag þriðja og næst síðasta hringinn á 2. stigs úrtökumóti fyrir Evrópumótaröð karla sem fer fram á Desert Springs vellinum á Spáni.

Andri er efstur af íslensku strákunum eftir þrjá hringi en hann er samtals á þremur höggum undir pari. Andri lék á tveimur höggum undir pari í dag og er jafn í 9. sæti þegar fréttin er skrifuð.

Að fjórum hringjum loknum halda 20 kylfingar áfram á lokastigið og er því Andri í kjörstöðu til þess að komast áfram. Fari svo að veðrið verði ekki til vandræða á morgun má gera ráð fyrir því að Andra dugi að leika á parinu á lokahringnum.

Guðmundur Ágúst er einnig í góðri stöðu á höggi yfir pari í 18. sæti. Guðmundur lék þriðja hringinn á parinu þrátt fyrir að enda á tveimur skollum í röð.

Rúnar er jafn í 47. sæti á 5 höggum yfir pari og þarf á frábærum lokahring að halda til þess að eiga möguleika á að komast áfram. Rúnar lék þriðja hringinn á höggi undir pari en annar hringurinn, þar sem hann lék á 80 höggum, gæti orðið honum að falli í baráttunni um sæti á lokastiginu.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Sjá einnig:

Úrtökumótin: Haraldur búinn með annan hringinn